66 léku golf til góðs á Kirkjubólsvelli
Sextíu og sex kylfiingar léku golf til góðs laugardaginn 13.06. á Kirkjubólsvelli hjá Golfklúbbi Sandgerðis. Þá voru margir sem greiddu mótsgjald án þess að keppa til að styrkja málefnið. Með þessu móti tókst að safna yfir 300 þúsund krónum sem renna til Þroskahjálpar á Suðurnesjum, en mótsgjöld renna óskert til uppbyggingar og viðhalds á Ragnarseli en þar er rekin dagvistunar-þjónusta fyrir fötluð born á Suðurnesjum á vegum Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
Sæunn Guðjónsdóttir forstöðumaður Ragnarsels var afar ánægð með afrakstur dagsins og sagði að peningarnir kæmu að góðum notum en stöðugt er verið að bæta aðstöðuna á Ragnarseli.
Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbsins var einnig ánægður en þetta er í annað sinn á tveimur árum sem Klúbburinn gefur völlinn í einn dag til að hægt sé að halda mótið.
Aðalstyrktaraðili mótsins er Norðurál en aðrir velunnarar og styrktaraðilar eru Golfklúbbur Sandgerðis, Flugfélag Íslands, Lögfræðistofa Suðurnesja, Sparisjóðurinn og Landsbankinn.
Árni Freyr Ársælsson GVS (Golfklúbbi Vatnsleysustrandahrepps) er Ragnarselsmeistari í ár en mótið er haldið árlega á vegum Þroskahjálpar á Suðurnesjum og fékk Árni í sinn hlut Ragnarselsbikarinn til varðveislu í eitt ár. Árni var með flesta pkt. með forgjöf eða 41 pkt. Sveinbjörn Bjarnason GSG var annar og Sveinn Hans Gíslason var þriðji. Í kvennaflokki var Erla Þorsteinsdóttir GS í fyrsta sæti, Guðný Sigurðardóttir GS önnur og Kristín Eyglóardóttir GÞ í þriðja. Þorsteinn Geirharðsson GS var í fyrsta sæti í höggleik án forgjafar og í kvenflokki var Rut Þorsteinsdóttir GSG fyrst í höggleik án forgjafar.