5. flokkur Keflavíkurpilta Íslandsmeistari
Helgina 8.-9. september fór fram úrslitakeppni Íslandsmótsins hjá 5. flokki drengja á Fjölnisvelli. Keflavík átti fulltrúa í C- og D-liða keppninni. Keppt var í tveimur fjögurra liða riðlum og sigurvegarar riðlanna léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.
C-liðið stóð sig mjög vel og var hársbreidd frá því að leika úrslitaleikinn. Stjarnan, Fylkir og Keflavík voru öll jöfn að stigum að lokinni riðlakeppninni, þannig að draga þurfti um sigurvegara. Stjarnan var þar með heppnina með sér, þeir fóru í úrslitaleikinn og sigruðu Breiðablik örugglega í úrslitaleik.
D-liðið sigraði í öllum sínum leikjum í riðlakeppninni og spiluðu æsispennandi úrslitaleik gegn Breiðablik. Keflavíkurpiltarnir komust í 1-0 um miðbik fyrri hálfleiks með marki frá Viktori Abdullah, en Blika drengir jöfnuðu stuttu síðar. Seinni hálfleikurinn var í járnum og mikil barátta hjá báðum liðum. Þegar ein mínúta var til leiksloka náði Gunnólfur Guðlaugsson að stela knettinum af varnarmanni Blika og skora sigurmarkið. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka brutust út mikil fagnaðarlæti hjá Keflavíkur drengjunum sem eiga hrós skilið fyrir frábæra framgöngu, segir á heimasíðu Keflavíkur.