40 ár frá síðasta Íslandsmeistaratitli Keflvíkinga
Þjálfari meistaraliðs Keflavíkur 1971 sagði aðstæður frábærar í bænum, flóðljós og malarvöll!
Árið 1973 þjálfaði enski þjálfarinn Joe Hooley Keflvíkinga og gerði þá að Íslandsmeisturum. Liðið vann alla leiki deildarinnar að tveimur undanskildum sem fóru jafntefli, m.a. síðasti leikur tímabilsins við Breiðablik 4:4. Þá varð Joe brjálaður og fór af vellinum áður en bikarinn var afhentur á Keflavíkurvelli.
Joe þessi var harður í horn að taka en þótti frábær þjálfari og kom með margar nýjungar í leik Keflavíkur. Meðal annars lagði hann mikla áherslu á spyrnur úr föstum leikatriðum eins og horn og aukaspyrnur og skiluðu þær mörgum mörkum um sumarið.
Þjálfarinn 1971 ánægður með aðstæður í Keflavík
Í Suðurnesjatíðindum (forvera Víkurfrétta) tveimur árum áður eða 7. maí 1971 er skemmtilegt viðtal við nýráðinn þjálfara Keflavíkur, Einar Helgason, íþróttakennara frá Akureyri. Þar segir hann m.a. að þrátt fyrir að nokkrir reynslumiklir leikmenn hafi hætt séu allir möguleikar á því að liðið verði í titilbaráttunni. Það er tvennt sem vekur athygli í viðtalinu við Einar. Hann segir m.a. að að aðstæður í Keflavík séu með því besta sem hann hafi kynnst, nánast sagt frábærar. „Í fyrsta lagi hafið þið frábæran malarvöll sem við höfum ekki fyrir norðan og mér sýnist grasvöllurinn einn sá besti á landinu. Flóðlýsing gerir svo mönnum kleift að æfa og keppa allt árið um kring,“ segir Einar.
Aðspurður síðar í viðtalinu hvernig honum lítist á mannskap liðsins segir hann það hafa innanborðs marga lipra knattspyrnumenn, og all nokkra sem hafi almennt meiri knatttækni en almennt gerist á landinu.
Því er til að bæta að Einar gerði liðið að Íslandsmeisturum um sumarið og Keflvíkingar urðu þá meistarar í annað sinn á þremur árum. Keflavík varð fyrst meistari 1964, svo kom titill 1969 en árið á undan var liðið í fallbaráttu og þurfti að leika úrslitaleiki við Hauka um hvort liðið yrði áfram í 1. deild.
Hér má sjá úrklippu úr viðtalinu við Einar Helgason í Suðurnesjatíðindum í maí 1971.