33 Keflvíkingar í úrvalsbúðum KKÍ
KKÍ stóð fyrir æfingabúðum fyrir úrvalshópa í íþróttahúsi Grindavíkur helgina 21.–22. maí. Úrvalshóparnir eru undanfari yngri landsliða Íslands og æfa þeir undir leiðsögn reyndra þjálfara og gestaþjálfara. Samtals voru mörg hundruð iðkendur fæddir 2010 og 2011 sem tóku þátt. Alls voru sautján strákar og sextán stelpur frá Keflavík í úrvalsbúðunum.
Sigurður Friðrik Gunnarsson, oftast kallaður Siddi, er þjálfari þeirra drengja sem sóttu úrvalsbúðirnar, ásamt Sindra Kristni Ólafssyni. Siddi er einnig með afreksþjálfun fyrir þrettán til tuttugu ára og er í þjálfarateymi U16 karlalandsliðs Íslands sem er á leið á NM og EM í sumar. Siddi leggur áherslu á að rækta áhuga og ánægju körfuboltaiðkenda og segir það vera lykil að velgengi. „Metnaðurinn byrjar í ánægjunni. Ef við ræktum áhuga og ánægju fyrst, leggur iðkandinn meiri ástundun í sínum frítíma á það að æfa sig án þess að finnast hann vera skyldugur til þess eða að það sé einhver kvöð. Framfarir verða mikið til að veruleika á manns eigin tíma utan skipulagðra æfinga að mínu mati,“ segir Siddi og bætir við: „Við getum alltaf á okkur blómum bætt og því hvet ég alla krakka og unglinga á Suðurnesjum að koma og prófa að æfa körfubolta hjá sínu félagi. Körfubolti er drottning allra íþrótta.“
Skilaboð Sidda til upprennandi körfuboltastjarna eru „vertu góð(ur) í hlutunum sem krefjast engra hæfileika en hjálpa liðinu á ómetanlegan hátt. Hlutir eins og ákefð, barátta, að vera góður liðsfélagi, jákvæðni, vera ekki hræddur við mistök o.s.frv. Allir þjálfarar elska að vera með einstaklinga sem eru með þessa eiginleika. Ofan á það skiptir mjög miklu máli að hafa þannig ást fyrir leiknum að boltinn sé sem oftast í höndunum á þér yfir daginn. Æfingin skapar jú meistarann.“