3-3 í Árbænum
Annað jafntefli Keflvíkinga í röð og falldraugurinn í dyragættinni
Keflvíkingar og Fylkismenn áttust við í Lautinni í Árbæ fyrr í kvöld þar sem að bæði lið þurftu að sætta sig við eitt stig í 3-3 jafntefli. Lítil breyting er því á stöðu Keflvíkinga í deildinni en liðið situr enn sem fastast við botn deildarinnar.
Fyrstu 20 mínútur leiksins voru hreint út sagt ágætar þar sem að hvorki meira né minna en fimm mörk litu dagsins ljós.
Hólmar Örn Rúnarsson kom Keflavík yfir á 6. mínútu eftir sendingu Martins Hummervoll en Fylkismenn jöfnuðu strax á 11. mínútu þegar Ingimundur Níels Óskarsson skoraði eftir frábæra sendingu Jóhannes Karls Guðjónssonar.
Fylkismenn voru vart búnir að fagna markinu þegar Martin Hummervoll kom Keflvíkingum aftur yfir með skoti í fjærhornið eftir nokra áræðni. Vel gert hjá Norðmanninum þar. Þá var komið að þætti Alberts Brynjars Ingasonar sem skoraði tvö mörk, það fyrra á 19. mínútu og það seinna á þeirri 21. til að koma heimamönnum yfir í leiknum og menn varla að ná andanum í Árbænum fyrir markasúpunni sem verið var að matreiða ofan í mannskapinn. Albert var svo nálægt því að henda inn þrennunni aðeins mínútu síðar en allt kom fyrir ekki í það skiptið.
Eilítil ró færðist í leikinn eftir þetta, Fylkismenn sköpuðu sér betri færi það sem eftir lifði hálfleiks en liðin gengu þó til búningsherberja í stöðunni 3-2.
Á 53. mínútu gátu heimamenn lokað leiknum og gott sem bundið enda á vonir Keflvíkinga um að leika í Pepsí deildinni að ári þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu. Alberti Brynjari Ingasyni var hins vegar fyrirmunað að skora þrennuna þetta ágæta kvöld þar sem að Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur varði meistaralega frá honum og hélt vonum gestanna á lífi. Sindri átti reyndar mjög góðan leik og geta Keflvíkingar þakkað þessum unga markverði fyrir að ekki voru skoruð fleiri mörk í net Keflvíkinga í þessum leik.
Á 75. mínútu var komið að Keflvíkingum að fá vítaspyrnu og gerði Magnús Þórir Matthíasson enginn mistök á punktinum og jafnaði leikinn í 3-3 en það var títt nefndur Hummervoll sem að hafði fiskað vítaspyrnuna.
Fylkismenn sóttu svo meira undir lokin og fengu nokkur ákjósanleg færi en Sindri var búinn að loka sjoppunni þetta kvöldið og voru því enginn mörk afgreidd eftir lokunartíma og því fór sem fór. Bæði lið hefðu viljað sækja öll þrjú stigin og þurftu á þeim að halda, þó á sitt hvorri forsendunni.
Með sínu öðru jafntefli í röð fara Keflvíkingar langleiðina að því að búa sig undir fall í 1. deild. Bilið á milli þeirra og næstu liða er að verða of mikið fyrir þann tímaramma sem til stefnu er en þó eru enn tölfræðilegar líkur sem geta yljað mönnum í nótt og frameftir vikunni.