200 keppendur í opnunarmóti í Leirunni
200 keppendur eru skráðir í opnunarmót Hólmsvallar í Leiru á laugardaginn. Færri komust að en vildu og er þegar kominn biðlisti inn í mótið.
Að sögn Gylfa Kristinssonar, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Suðurnesja, kemur völlurinn vel undan vetri, jafnvel betur en undanfarin ár. "Völlurinn er þurrari en oft áður og við hefðu jafnvel getað opnað hann fyrr. Hann er það þurr að við getum opnað æfingasvæðið á morgun, en það er óvenju snemmt. Þar hefur undanfarin ár verið mikil bleyta á þessum árstíma. Við opnuðum völlinn á svipuðum tíma í fyrra, " sagði Gylfi.
Hann sagði að engar framkvæmdir hafi verið á vellinum í vetur eða vor. Eins og áður segir opnar völlurinn formlega á laugardag með mótinu, en verður síðan opinn fyrir almenning á sunnudag og í allt sumar og langt fram á haust. Golfvertíðin er sem sagt hafin í Leirunni.
Myndir/Kylfingur.is: Þessar myndir voru teknar á Hólmsvelli í Leiru í síðustu viku, en síðan þá hefur græni liturinn tekið völdin á brautunum.
Fleiri golffréttir á www.kylfingur.is