Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

2. deild: Suðurnesjaliðunum í gekk misvel í gær
Þróttarar tileinkuðu Baldvin Hróari Jónssyni og fjölskyldu sigurinn. Mynd af Facebook-síðu Þróttar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. júlí 2020 kl. 09:36

2. deild: Suðurnesjaliðunum í gekk misvel í gær

Fyrsti heimaleikur Hermanns í Vogum

Á Vogaídýfuvellinum mættu Þróttarar Selfossi í 2. deild karla í gærkvöldi. Þróttur hefur verið á fínni siglingu í síðustu leikjum eftir smá gangtruflanir í byrjun Íslandsmótsins. Þetta var fyrsti heimaleikur Hermanns Hreiðarssonar eftir að hann tók við liðinu og það vakti athygli að fyrrum landsliðsmarkvörður Englands, David James, var í þjálfarateymi Þróttar en hann og Hermann eru miklir mátar.

Snemma í leiknum (20’) urðu Selfyssingar fyrir blóðtöku þegar þeir misstu mann af velli með rautt spjald og fengu þeir að sjá þrjú gul spjöld til viðbótar fyrir leikhlé. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en á 53. mínútu kom Andri Jónasson heimamönnum yfir. Leikurinn reyndist erfiður gestunum manni færri og þeir héldu áfram að safna spjöldum, fengu þrjú gul til viðbótar í seinni hálfleik. Á 70. mínútu skipti Hermann Erni Rúnari Magnússyni inn á fyrir Alexander Helgason en Örn átti eftir að stoppa stutt við, fékk að líta rautt spjald átta mínútum eftir að hann kom inn á og því jafnt í liðum út leikinn. Ekki náðu Selfyssingar að nýta sér það og með góðum sigri hafði Þróttur sætaskipti við Selfoss, eru komnir í fjórða sæti með jafnmörg stig og Fjarðabyggð sem er í því þriðja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þróttarar tileinkuðu Baldvin Hróari Jónssyni og fjölskyldu sigurinn en Hróar, sem var virkur í félagsstarfi Þróttar og m.a. fyrrverandi formaður UMFÞ, varð bráðkvaddur fyrir fáeinum dögum aðeins fertugur að aldri.

Jafnt í Breiðholti

Njarðvíkingar sóttu ÍR heim í gær í 2. deild karla. Njarðvíkingar, sem ætla sér að vera í toppbaráttunni í sumar, voru fyrir leikinn í fjórða sæti deildarinnar. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel en ÍR-ingar komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Njarðvíkingar sköpuðu sér samt færi en markalaust í hálfleik.

Eftir tæplega stundarfjórðungs leik í seinni hálfleik misstu ÍR-ingar markvörð sinn meiddan af velli og þurfti útileikmaður að standa í markinu það sem eftir lifði leiks þar sem enginn varamarkmaður var á leikskýrslu. Við það að missa markmanninn út af virðast þeir hafa fundið blóðbragð og skoruðu gott mark strax eftir skiptingu (64’). Njarðvíkingar juku pressuna jafnt og þétt eftir markið en það var ekki fyrr en á 85. mínútu sem vörn ÍR gaf undan. Arnar Helgi Magnússon átti þá góða sendingu fyrir markið þar sem Kristján Ólafsson smellti boltanum í netið, óverjandi fyrir útileikmanninn í marki ÍR. Ekki voru fleiri mörk skoruð og 1:1 jafntefli niðurstaðan.

Við þessi úrslit detta Njarðvíkingar niður í 6. sæti með tíu stig. 2. deild er gríðarlega jöfn og þéttur pakki við toppinn. Það munar aðeins tveimur stigum á liðunum fimm sem eru í öðru til sjötta sæti, Haukar eru með tólf stig í öðru sæti. Kórdrengir leiða deildina með þrettán stig en þeir leika gegn botnliði Völsungs í dag.

Vörnin götótt hjá Víði

Víðismenn gerðu sér ferð upp á Akranes í gær þar sem þeir léku gegn Kára í 2. deild karla. Það gengur ekkert hjá Víðismönnum þessa dagana og þeim gengur illa að þétta vörnina. Strax á 11. mínútu skoraði Kári og á 35. mínútu bættu þeir öðru marki við. 2:0 í hálfleik.

Kári bætti þremur mörkum við í seinni hálfleik og 5:0 tap niðurstaðan hjá Víði sem þarf að bæta varnarleikinn ætli þeir sér að rífa sig burt af fallsvæðinu en Víðir er þessa stundina í þriðja neðsta sæti, tveimur stigum fyrir ofan Reyni/Dalvík. Markatalan hjá Víði sýnir best vandræði þeirra varnarlega en þeir hafa fengið átján mörk á sig í fyrstu sex umferðum 2. deildar og eru með fjórtán mörk í mínus en botnliðin tvö, Reynir/Dalvík og Völsungur, eru hvort um sig með sex mörk í mínus (Völsungur á reyndar eftir að leika gegn toppliði Kórdrengja síðar í dag).

Víðismenn hafa átt í vandræðum með vörnina í sumar.