Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

2-0 tap í Kaplakrika
Keflvíkingum tókst ekki að koma boltanu í FH markið í kvöld - myndin er úr leik Keflavíkur og Víkings í fyrstu umferð Pepsí deildarinnar
Sunnudagur 10. maí 2015 kl. 21:22

2-0 tap í Kaplakrika

Keflvíkingar leita enn að fyrstu stigum sumarsins

Keflvíkingar urðu að játa sig sigraða í kvöld er liðið lék gegn FH í Kaplakrika í 2. umferð Pepsí deildar karla. Lokatölur urðu 0-2.

FH-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og fengu fjölmargar hornspyrnur og nokkur sannkölluð dauðafæri til að komast yfir en Keflvíkingar björguðu nokkrum sinnum á línu auk þess sem að Richard Arends varði vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir brösuga byrjun komust Keflvíkingar betur í takt við leikinn og um miðbik hálfleiksins sóttu Keflvíkingar í sig veðrið og hófu að pressa FH-inga hátt á vellinum sem olli nokkrum usla í FH vörninni. Sigurbergur Elísson fékk gullið tækifæri til að koma Keflavík yfir á 40. mínútu leiksins er hann fékk boltann frá varnarmanni FH við vítateig fyrir misskilning og skaut viðstöðulausu skoti framhjá marki heimamanna en markvörður FH var þannig staðsettur að hann hefði aldrei átt möguleika á að verja hefði Sigurbergur hitt á markið.

Staðan var því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði rólega en það voru gestirnir úr Keflavík sem að fengu sennilega besta marktækifæri leiksins fram að því á 57. mínútu þegar Sindri Snær Magnússon fékk boltinn í markteig heimamanna en Róbert Óskarsson í marki FH sá við honum. FH-ingar fengu svo dauðafæri í næstu sókn en Richard Arends varði vel þegar Kristján Flóki Finnbogason komst einn í gegn á móti honum.

Bojan Stefán Ljubicic var svo nálægt því að brjóta ísinn á 67. mínútu þegar fyrirgjöf hans stefndi yfir Róbert í markinu sem náði á síðustu stundu að blaka honum yfir markið í hornspyrnu sem að ekkert varð svo úr. 

Það var svo á 70. mínútu sem að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós þegar hinn magnaði Atli Viðar Björnsson skoraði rándýrt mark í slánna og inn eftir að hafa fengið frábæra fyrirgjöf frá Atla Guðnasyni en Atli Viðar hafði komið inná sem varamaður, einu sinni sem oftar, og stimplað sig inn 5 mínútum síðar með þessu laglega marki.

Liðin skiptust á sóknum eftir þetta en náðu ekki að ógna markinu að neinu viti fyrr en á 82. mínútu þegar heimamenn veittu Keflvíkingum náðarhöggið. Steven Lennon snéri þá af sér varnarmann Keflvíkinga eftir stutta sendingu frá Atla Guðnasyni og klobbaði Richard Arends í marki gestanna og staðan orðin 2-0 fyrir FH sem að áttu sigurinn nánast vísan eftir það. 

Til að bæta gráu ofan á svart fékk hinn spænski Insa Fransisco að líta rauða spjaldið 5 mínútum fyrir leikslok eftir glórulaust brot á Böðavari Böðvarssyni. Beint rautt og það vel verskuldað að mati blaðamanns.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í Hafnarfirði í kvöld og eru Keflvíkingar þar með stigalausir eftir fyrstu tvær umferðir Íslandsmótsins og með markatöluna 1-5, eitthvað sem Kristján Guðmundsson og lærisveinar hans hefðu vel getað séð öðruvísi fyrir sér fyrir mót.

FH-ingar eru hins vegar á toppi deildarinnar með 6 stig.

Næsti leikur Keflvíkinga verður sunnudaginn 17. maí þegar Breiðablik mætir í heimsókn á Nettóvöllinn.