2. flokkur í bikarúrslitum í kvöld
2. flokkur Keflavíkur karla í knattspyrnu leikur til úrslita í Valitor bikarnum á Ásvöllum klukkan 19:00 í kvöld. Þar mæta þeir heimamönnum í Haukar/Markaregn og vafalaust verður um hörkuleik að ræða. Sigurbergur Elísson er einn af þeim strákum sem hefur hjálpað þeim að komast í úrslitaleikinn og við tókum hann tali.
„Það er bara magnað að vera komnir í bikarúrslitin. Það var alveg klárt markmið fyrir sumarið. Þetta er síðasta árið mitt og fleiri stráka í 2. flokki og okkur dauðlangar að klára þetta með titli.“
Strákarnir hafa farið erfiða leið í úrslitin og lent á mjög sterkum liðum á leiðinni. Þó var undanúrslitaleikurinn gegn Blikunum erfiðastur hvað erfiðastur að sögn Sigurbergs. Sigurbergur segir að þeir muni ekki vanmeta Haukana þó að þeir séu í C-riðli. „Það má alls ekki þar sem að þetta er sterkt lið. Þarna eru m.a. strákar sem eru að byrja hjá meistaraflokki Hauka, þannig að þeir eru góðir.“
„Við erum búnir að fá að nýta liðið okkar frekar illa á Íslandsmótinu þar sem menn eins og Arnór Ingvi, Bojan og Viktor Smári eru búnir að vera að spila mikið með meistaraflokkum og Willum vill ekki vera að nota þá mikið í 2. flokks leikina.“ Eru þá ekki bara aðrir að stíga upp? „Jú það eru fullt af flottum strákum hérna. Magnús Þór er búinn að vera frábær hjá okkur, eins Árni markmaður og Beggi. Daníel Gylfason er búinn að vera rosalega sterkur, framfarirnar hjá honum á einu ári eru hreint ótrúlegar,“ segir Sigurbergur að lokum og hvetur jafnframt fólk til að mæta og styðja við bakið á strákunum.
VF-Mynd: Sigurbergur í baráttunni gegn Blikum í undanúrslitunum