2. deildin: Reynir styrkir stöðu sína á toppnum
Reynir frá Sandgerði er með örugga forystu á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu eftir sigur á Tindastóli í gær, 3-1. Á meðan unnu Njarðvíkingar góðan sigur á Magna frá Grenivík, 2-1, en Víðir úr Garði gerði jafntefli gegn BÍ/Bolungarvík, 1-1.
Sandgerðingar vígðu í gær nýja stúku á Sparisjóðsvellinum en það virtist sem Sauðkrækingar ætluðu sér að spilla vígsluleiknum þegar þeir komust yfir strax í upphafi leiks. Jóhann Magni Jóhannsson jafnaði leikinn á 32. mín úr víti sem var dæmt eftir að brotið hafi verið á honum sjálfum.
Eftir því sem leið á leikinn stefndi í jafntefli, en á ögurstundu skoraði Magnús Ólafsson annað mark heimamanna og á síðustu andartökum leiksins skoraði Hjörvar Hermannsson síðasta markið eftir góðan undirbúning hjá Kristófer Sigurgeirssyni, spilandi þjálfara liðsins.
Njarðvíkingar lentu einnig undir snemma leiks á Njarðtaksvelli en jöfnuðu strax í upphafi seinni hálfleiks og var Björn Ísberg Björnsson þar að verki.
Það var svo Rafn Markús Vilbergsson sem tryggði mikilvægan sigur með marki á 75.mín og sigurinn var í höfn.
Víðismenn eru ekki í góðum málum í deildinni og hefðu vel þegið að taka þrjú stig með sér heim að vestan. Þeir komust yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með marki Axels Inga Magnússonar, en heimamenn jöfnuðu á 70. mín og þar við sat.
Reynismenn eru með 18 stig eftir sjö leiki og hafa sex stiga forskot á Gróttu og Njarðvík, en Víðir er í ellefta og næst neðsta sæti deildarinnar með einungis þrjús stig og haf ekki enn unnið sigur í deild.
Sjá nánar stöðuna í deildinni.
Myndir: Jón Örvar/Reynir.is og umfn.is