Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

1X2: Sandgerðingar berjast
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 20. október 2023 kl. 06:08

1X2: Sandgerðingar berjast

Jónas Þórhallsson hafði betur gegn Rúnari Arnarsyni í fyrstu umferð tippleiks Víkurfrétta og hélt þar með velli. Víkurfréttir ákváðu að leita út í Sandgerði eftir nýjum áskoranda og varð Sigursveinn Bjarni Jónsson fyrir valinu en Sissi eins og Sigursveinn er líklega betur þekktur, hefur verið ötull stuðningsmaður Reynis í Sandgerði til fjölda ára og var um tíma formaður knattspyrnudeildarinnar. Hann er fimm barna faðir og fjögurra barna afi, vinnur hjá Iceland Seafood og situr í dag í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar fyrir X-S, Samfylkinguna og óháða.

Sissi hafði þetta að segja um komandi slag gegn Jónasi. „Ég hef verið viðloðandi stjórn knattspyrnudeildar Reynis í tæp 24 ár, var formaður 2003–2008 og aftur 2018–2022. Mikil hefð er fyrir þátttöku í getraunum í Sandgerði og Knattspyrnufélagið Reynir á traustan hóp sem merkir við 245. Í gegnum árin hefur getraunastarfið oft verið öflugt og markvisst og mikið af góðu fólki lagt fram óeigingjarna vinnu. Þessa stundina er því miður ekkert skipulagt getraunastarf á vegum deildarinnar en ég kalla eftir að fólk bjóði sig fram til að halda utan um slíkt starf. Aðstaðan í Reynisheimilinu er frábær og væri tilvalið að endurvekja starfið, t.d. á laugardagsmorgnum. Ég hef sjálfur tippað nokkuð reglulega þegar enski boltinn er í gangi en aldrei náð að vinna þann stóra, mest fengið nokkra þúsundkalla út úr tólf réttum. Fyrir utan Reyni Sandgerði þá er mitt lið Manchester United, maður heldur ávallt tryggð við liðið þrátt fyrir misjafnt gengi undanfarin ár. Mér líst vel á að mæta Jónasi í þessari umferð en hann er mesti Reynismaður og Sandgerðingur sem ég þekki og hefur það verið mér ómetanlegt að geta leitað í hans viskubrunn þegar kemur að rekstri og utanumhaldi knattspyrnudeildar. Þá átti hann hugmyndina að Norðurbær - Suðurbær-mótinu í Sandgerði en það mót fór fram í fjórtánda skipti fyrr á árinu, þar er ég í stjórn ásamt fleira góðu fólki. Mér líst mjög vel á að endurvekja tippleikinn í blaðinu og hvet alla tippara til að muna að merkja við sitt félag, það munar um minna í rekstri deildanna,“ sagði Sissi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jónas, sem er gallhaður stuðningsmaður Manchester United, var að vanda hógvær eftir sigur sinn gegn Rúnari. „Ég er auðvitað ánægður með að hafa unnið Rúnar, vissi að þetta yrði hörkuleikur okkar á milli. Annars er gaman frá því að segja að ég fór í verslun í Reykjanesbæ í síðustu viku eftir að Víkurfréttir komu út og það kom að mér maður sem hrósaði mér fyrir að búið væri að endurvekja þennan dálk í Víkurfréttum. Ég er nú svo hógvær að ég ákvað að eigna mér ekki heiðurinn af þessu en það er greinilegt að þetta vekur athygli. Maðurinn sagðist vona að getraunakaffið yrði endurvakið í Reykjanesbæ, hann mundi vel eftir þegar það var í K-húsinu við Hringbrautina á sínum tíma en svo lognaðist það út af þegar það færðist á aðra hæð í skólanum. Ég tek undir með þessum ágæta manni, ég vona að getraunaspekingar í Reykjanesbæ finni sér samastað, ég held að þetta eigi mjög vel heima inni á nýja staðnum Brons og skora hér með á vin minn Magga Þorsteins og félaga hans á staðnum að hjálpa til við að búa þetta til,“ sagði Jónas.