16 liða úrslitum lýkur í dag
Fimm leikir fara fram í Lýsingarbikarkeppni karla í dag og þá ræðst hvaða lið muni leika til 8 liða úrslita í karlaflokki. Í gær varð ljóst hvaða lið í kvennaflokki munu leika til 8 liða úrslita.
Leikir dagsins hefjast kl. 15:00 þegar 1. deildarslagur Þórs í Þorlákshöfn og Hattar frá Egilsstöðum fer fram í Þorlákshöfn.
Kl. 17:00 hefst svo viðureign Tindastóls og Keflavíkur en leikurinn fer fram á Sauðárkróki.
Þá fara þrír leikir fram kl. 19:15. Bikarmeistarar ÍR halda áfram titilvörn sinni er þeir mæta Hamri í Hveragerði. Liðin mættust einmitt í bikarúrslitum á síðustu leiktíð þar sem ÍR hafði nauman sigur í spennuleik.
Íslandsmeistarar KR taka svo á móti Grindavík í DHL-Höllinni í Vesturbænum kl. 19:15 en Grindavík hafði 109-100 sigur gegn KR þegar liðin mættust í Iceland Express deildinni í upphafi móts. Sá leikur var hraður, spennandi og skemmtilegur og því töluverðar væntingar um góðan körfubolta í DHL-Höllinni í kvöld.
Nýliðar Stjörnunnar taka svo á móti Njarðvíkingum í Ásgarði kl. 19:15 en Stjarnan vann sinn fyrsta útisigur í úrvalsdeild í sögu félagsins er þeir lögðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni fyrr á þessari leiktíð.
Þau lið sem komin eru áfram í karla- og kvennaflokki:
Kvennaflokkur:
Hamar
UMFG
Keflavík
KR
Snæfell
Fjölnir
Valur (Sátu hjá í fyrstu umferð)
Karlaflokkur:
Snæfell
Skallagrímur
Fjölnir