14 ára körfuboltadómari
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og þannig er í pottinn búið hjá þeim Kristni Óskarssyni og Ísaki Kristinssyni körfuknattleiksdómurum. Feðgarnir eru körfuknattleiksunnendur inn að beini og um síðustu helgi voru þeir saman dómarapar í Njarðvík þegar heimamenn tóku á móti Tindastól í 1. deild kvenna. Sá leikur var fyrsti meistaraflokksleikurinn sem Ísak dæmdi en hann er aðeins 14 ára gamall og er nemandi í 9. bekk við Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir ungan aldur er Ísak enginn nýgræðingur en hann hefur dæmt 63 mótsleiki og tekur dómarastarfið alvarlega.
,,Ég byrjaði að suða í pabba um að fá að fara með honum á leiki þegar ég var um 8 ára. Hann vildi ekki alltaf að maður kæmi með í öll verkefnin en ég fór t.d. síðast með honum í Stykkishólm og fer á alla leiki með honum sem ég get og það líður vart sá dagur að við tölum ekki um dómgæslu,” sagði dómarinn Ísak en þessum unga manni er margt til lista lagt. Ísak æfir einnig körfubolta með Keflavík og golf hjá GS og svo lærir hann á trompet í tónlistarskólanum á veturna og vílar það því ekki fyrir sér að blása hraustlega í eitt stykki dómaraflautu.
,,Við fengum t.d. video af Njarðvíkurleiknum um síðustu helgi og við pabbi fórum saman í gegnum leikinn og fórum yfir hvað mátti gera betur og hvað hafi verið vel gert,” sagði Ísak sem dæmt hefur með fleiri dómurum úr úrvalsdeildinni en Kristni föður sínum. Hann segir það vera einn af lyklunum að árangri í dómgæslustarfinu að dæma með alvöru mönnum. Metnaðurinn er til staðar og segir Ísak að stefnan sé að slá öll dómaramet föður síns og nú þegar fyrsti meistaraflokksleikurinn er kominn verður það bara tíminn sem mun leiða í ljós hvort annar fyrsta flokks körfuboltadómari af Suðurnesjum sé í fæðingu. En hvað segir lærifaðirinn og pabbinn um dómarann Ísak?
,,Ísak er búinn að sýna dómgæslu mikinn áhuga núna í tvö ár og ég hef verið að streitast aðeins ámóti og vildi ekki að hann færi út í þetta þegar hann byrjaði að sína þessu áhuga. Mér fannst þetta neikvæða sem fylgir þessu starfi eitthvað sem væri ekki fyrir börnin mín en þegar ég skynjaði að það yrði ekki aftur snúið með þetta,” sagði Kristinn en dómgæslan hefur veitt honum sjálfum aga og knúið hann til að vera stöðugt með sjálfan sig í þróun. ,,Þá hef ég fengið að ferðast sem dómari og kynnst fólki úti um alla heim sem er eitthvað sem ég vil fyrir börnin mín. Ísak mun þurfa eilífan saman burð við mig, pabbi hitt og pabbi þetta, en við erum frekar ólíkir. Hann er mýkri maður en ég og ekki jafn hvass og harður en hefur reyndar meiri samskiptahæfileika en ég og er duglegur að spyrja og læra,” sagði Kristinn.
,,Ég tala aldrei um dómgæslu við hann af fyrra bragði því ég vil að hann geri þetta sjálfur. Að dæma sinn fyrsta meistaraflokksleik 14 ára er mjög ungt en ég verð að segja að hann var mun betri en ég átti von á. Hann tók enga mjög slæma ákvörðun í leiknum og dæmi ég nú oft með dómurum sem taka mjög slæmar ákvarðanir.” Pabbin hefur gefið syni sínum svigrúm til þess að átta sig sjálfur á dómgæslunni en Ísak er duglegur að bera sig eftir aðstoðinni og ræðast þeir feðgar mikið við. ,,Leiðin til að verða góður dómari er sú að þú verður að alast upp í íþróttinni og þú verður að spila íþróttina í a.m.k. 6-10 ár. Hann verður að halda áfram að æfa og elska körfubolta, þetta er ekki hægt öðruvísi,” sagði Kristinn. Sjálfur var Ísak nú lítið stressaður þegar hann dæmdi sinn fyrsta meistaraflokks um síðustu helgi.
,,Það kom nú reyndar smá skjálfti í mig þegar ég sá íþróttahúsið fyrst en svo varð þetta bara eins og hver annar leikur sem maður hefur dæmt, þetta er spenna og allt það en maður verður bara að dæma þetta eins og hvern annan leik,” sagði Ísak einn efnilegasti körfuboltadómari landsins um þessar mundir.