Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

13 ára kylfingur fór holu í höggi
Þriðjudagur 5. ágúst 2014 kl. 10:26

13 ára kylfingur fór holu í höggi

„Ég vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér.“

Birkir Orri Viðarsson 13 ára kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja sló á dögunum draumahöggið þegar hann fór holu í höggi á Hólmsvelli í Leiru. Birkir er einn af mörgum ungum og efnilegum kylfingum í GS og er klúbbmeistari í flokknum 14 ára og yngri. Draumahöggið kom á 16. holu er Birkir Orri var að leika æfingahring með Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni klúbbmeistara Golfklúbbs Suðurnesja. Hann sló af hvítum teigum sem eru öftustu teigarnir og svokallaðir meistarateigar. Holan er um 150 metrar á hvítum teigum. Birkir sagðist hafa orðið mjög hissa þegar golfboltinn fór ofan í og fattaði ekki alveg að hann hafi farið holu í höggi strax.

„Tilfinningin var svolítið skrýtin, ég var mjög hissa og fattaði eiginlega ekki að ég hefði farið holu í höggi. Eftir skamma stund áttaði ég mig á því að ég hefði farið holu í höggi á hvítum teigum, og þá varð ég mjög glaður. Ég sló með svokölluðum blendingi en ég sagði við Guðmund Rúnar að ég ætlaði að slá boltann í sveigju til vinstri og ég gerði það. Svo var ég byrjaður að taka upp tíið þegar ég leit upp og sá rétt svo í boltann fara ofan í holuna, ég missti næstum því af því. Boltinn lenti á flötinni og hoppaði svo beint ofan í. Við Guðmundur Rúnar vorum mjög hissa þegar boltinn fór ofan í en hann fagnaði hér um bil meira en ég. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér, það var fullt af fólki uppi á svölum sem klappaði fyrir mér, það var mjög gaman.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er með 8,9 í forgjöf

Birkir er með 8,9 í forgjöf sem krefst mikillar vinnu. „Ég er búinn að vera mikið í golfi í sumar, ég reyni að fara á hverjum degi upp á golfvöll, en ég tek mér yfirleitt frí einn dag í viku. Ég fer í kringum tíu á morgnanna til svona átta á kvöldin. Ég er á æfingum þrisvar sinnum í viku, en svo æfi ég mikið sjálfur.“

Byrjaði að æfa golf níu ára

„Ég var að lesa einhvern bækling frá Reykjanesbæ og þar rakst ég á golfíþróttina. Ég sagði við mömmu og pabba að mig langaði að prófa golf, þau voru nú nokkuð hissa á því að mig langaði allt í einu að byrja í golfi, en ég ákvað að stökkva á tækifærið og ég get ekki sagt að ég sjái eftir því núna. Ég fór á golfnámskeið eitt sumarið og þar kviknaði áhuginn, ég hef ekki horft til baka síðan. Ég byrjaði að æfa níu ára og litlu seinna fékk ég golfbakteríuna.“

En hvað heillar þig mest við golf?
„Landslagið og félagsskapurinn heillar mig mest við golf myndi ég segja. Þessi íþrótt er bara alveg frábær,“ sagði Birkir.

Uppáhalds:

Kylfingur?
Margir frábærir kylfingar eru í uppáhaldi. Ef ég á að nefna einhverja þá er það Rory Mcilroy sem sigraði Opna breska um daginn. Hann er frábær kylfingur og til fyrirmyndar á vellinum. Hér heima held ég mikið upp á Birgi Leif vegna þess að hann er okkar langbesti kylfingur og margt hægt að læra af honum. Hann gefur líka mikið af sér. Frá því ég var lítill strákur hef ég alltaf haldið mikið upp á Guðmund Ágúst. Fannst hann hálfgerður guð á tímabili. Hann er flottur.

Golfvöllur/-vellir?
Að sjálfsögðu minn heimavöllur Leira, svo Kiðjabergið, Borgarnes og Oddur. Erlendis er það Eagle Creek í Florida.
Einhverjar golfholur í sérstöku uppáhaldi?
Það myndir vera 16. holan í Leirunni, ekki annað hægt eftir að ég fékk ásinn þar. Svo er það 16. í Borgarnesi og 7. á Kiðjabergi.

Matur?
Haltu þér fast! Uppáhaldsmaturinn minn er ekki hefðbundinn fyrir 13 ára strák en það eru SVIÐ...besta sem ég fæ.
Drykkur?
Coca Cola og ískalt vatn er best.
Tónlist?
Hlusta mikið á tónlist og er í raun alæta á tónlist.
Bíómynd?
Step Brothers.
Þáttur?
The Walking Dead og að sjálfsögðu Golfið á RÚV.
Vefsíðan?
Golfdigest.com og kylfingur.is
Blaðið?
Golf á Íslandi.
Bókin?
Lygi eftir Yrsu Sigurðardóttur.