1100 börn á vel heppnuðu Nettómóti í körfuknattleik
Það voru u.þ.b. 1100 ungir og efnilegir körfuknattleikskrakkar, sem létu gamminn geysa í öllum íþróttahúsum Reykjanesbæjar um síðustu helgi en þá var Nettómótið haldið.
„Ég held að það sé hægt að halda því fram að mótið hafi gengið vel og allir krakkarnir voru ánægðir held ég og vona. Þetta mót hófst má segja í kringum 1990, hét þá Kókómjólkur-mótið, svo óx það jafnt og þétt og breyttist í Samkaups-mótið. Þegar Samkaup fór svo að leggja meiri áherslu á Nettó-vörumerkið í kringum 2010 breyttist nafn mótsins í Nettómótið. Það er mikið fjör hjá krökkunum en nokkuð stíf dagskrá er frá morgni til kvölds, ekki bara inni á körfuboltavellinum. Krakkarnir fara t.d. í sund, bíó, við komum stórum og flottum hoppukastala fyrir í Nettó-höllinni og ég er nokkuð viss um að það var ekki mikið bensín eftir á tanki krakkanna þegar lagst var á koddann um níuleytið á kvöldin. Þetta mót er fyrir 1.-5. bekk og allir eru sigurvegarar. Það er oft gaman að fylgjast með krökkunum, þau eru mismiklir keppnismenn og sumir segjast hafa talið stigin og halda því fram að sitt lið hafi unnið,“ segir Jón Ben Einarsson, mótsstjóri Nettómótsins.
Það eru grannafélögin Keflavík og Njarðvík sem halda mótið sameiginlega. Jón Ben tók þátt í stofnun félags sem heldur utan um mótið, Karfan, hagsmunafélag en allur ágóði rennur í unglingastarf félaganna.
„Félögin hafa alltaf haldið þetta mót saman en við stofnuðum sérstakt félag utan um mótið árið 2011, það er betra að halda utan um það þannig. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu og þarna snúa erkifjendurnir bökum saman má segja þessa helgi. Ég vil koma á framfæri kærum þökkum til allra sjálfboðaliðanna sem lögðu hönd á plóg um helgina,“ sagði Jón Ben í lokin.
Rekstraraðilar hinna ýmsu fyrirtækja, bakaría, veitingastaða og verslana njóta góðs af því þegar þúsundir ungmenna og foreldra mæta í Reykjanesbæ. Iðulega var fullt úr úr dyrum á mörgum stöðum.