Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

11 stiga sigur í Grindavík
Fimmtudagur 28. janúar 2010 kl. 08:45

11 stiga sigur í Grindavík


Grindavík hafði betur gegn liði Hamars þegar liðin áttust við í gærkvöldi  í IE-deild kvenna í körfuknattleik. Úrslit urðu 85 - 74.

Hamarstúlkur byrjuðu leikinn vel og komust í 11 – 2. Í lok fyrsta leikhluta hafði Grindavík náð að minnka forskotið er staðan var 18-12. Þær mættu einbeittar í annan fjórðung og jöfnuðu leikinn fljótlega í stöðunni 20-20.  Eftir það var leikurinn í járnum þar sem liðin skiptust á að leiða til loka fyrri hálfleiks en þá var stðan 35-33 fyrir Grindavík.
Fljótlega í seinnhálfleik tóku Grindavíkurstúlkur góðan leikkafla sem skilaði þeim 11 stiga forskoti. Gestirnir voru samt ekkert á því að hleypa þeim of langt framúr sér, spiluðu þéttan varnarleik og minnkuðu muninn í eitt stig undir lok þriðja leikhlutans. Petrúnella Skúladóttir skoraði þá tvær þriggja stiga körfur fyrir Grindavík og breytti stöðunni í 61-53.
Petrúnella var greinilega búin að finna miðið á körfuna því hún setti niður tvær 3ja stiga körfur í viðbót í upphafi fjórða leikhluta. Grindavíkurliðið datt í gírinn og náði 16 stiga forskoti þegar mest var, 71-55. Þrátt fyrir góða baráttu náðu Hamarsstúlkur ekki að stöðva andstæðingana sem höfðu 11 stiga forystu þegar yfir lauk.
Atkvæðamestar í liði Grindavíkur voru Michele DeVault, 24 stig og 6 stoðsendingar, Petrúnella Skúladóttir, 21 stig og 7 fráköst, og Helga Hallgrímsdóttir sem var með 15 fráköst og 6 stig.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd - Petrúnella Skúladóttir tók 6 þriggja stiga skot í leiknum. Fimm þeirra rötuðu ofan í.