Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

11. titillinn til Keflavíkur!
Mánudagur 29. mars 2004 kl. 21:53

11. titillinn til Keflavíkur!

Keflavíkurstúlkur tryggðu sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik þegar þær lögðu ÍS í þriðja leik liðanna í úrslitunum. Lokastaðan í Íþróttahúsinu við Sunnubraut var 85-56 og eins og tölurnar gefa til kynna áttu Stúdínur litla möguleika gegn feykiöflugu Keflavíkurliði í kvöld.

Gestirnir voru þó alls ekki á því að gefast upp fyrr en í fulla hnefana og bitu hressilega frá sér í upphafi leiksins og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 15-17. Keflvíkingar virtust ekki alveg vera með á nótunum í vörninni þar sem Stúdínur fengu að leika lausum hala.
Í upphafi annars leikhluta var annað uppi á teningnum og Keflavík skoraði fyrstu 9 stigin og tók stjórnina í leiknum. Svava Ósk Stefánsdóttir fór á kostum á þessum kafla og var að öllum ólöstuðum besti maður leiksins.
ÍS héngu þó í meisturunum lengi vel, en Erla Þorsteinsdóttir tryggði öruggt hálfleiksforskot, 39-32, með tveimur 3ja stiga körfum undir lokin.

Í þriðja leikhluta gerðu Keflvíkingar endanlega út um leikinn þar sem þær náðu 15 stiga forskoti og héldu áfram að bæta í í síðasta leikhlutanum þegar öllum var löngu ljóst í hvað stefndi. Keflavík skellti í lás í vörninni þar sem Anna María Sveinsdóttir fór fremst í flokki og yngri stelpurnar fengu einnig að láta ljós sitt skína á lokakaflanum.

Þannig er ljóst að Keflavík hefur unnið sinn 11. Íslandsmeistaratitil á 17 árum og er næst víst að þeir verða fleiri á næstu árum. Liðið er eflaust eitt allra besta félagslið frá upphafi kvennakörfunnar hér á landi og er framtíðin björt þar sem fjölmargar efnilegar stúlkur eru að taka sín fyrstu spor. Þær hafa sýnt hvað í þeim býr í vetur og eiga eftir að verða í fremstu röð í nánustu framtíð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024