101 Íslandsmet
Katla Ketilsdóttir setti fjórtán Íslandsmet á Evrópumótinu í ólympískum lyftingum. Að þessu sinni er mótið haldið í Tírana í Albaníu og fer fram dagana 28. maí til 5. júní. Katla keppti í -64 kg flokki kvenna og lenti hún í ellefta sæti. Þyngsta lyfta Kötlu í snörun var 88 kg en hún lyfti þyngst 106 kg í jafnhendingu og fékk hún allar sínar lyftur gildar. Auk þess að hafa sett fjöldann allan af Íslandsmetum á mótinu hlaut hún einnig „elite pin“ viðurkenninguna. Elite pin er viðurkenning sem veitt er þeim sem ná ákveðnum árangri eftir stöðlum Norðurlandanna og hafa staðist öll lyfjapróf á ferlinum. Þeir sem hafa hlotið viðurkenninguna fá beinan aðgang á öll mót Norðurlandanna. Katla var sjötti Íslendingurinn til að hljóta slíka viðurkenningu. Þess má geta að Katla hefur sett 101 Íslandsmet síðan hún byrjaði í íþróttinni.
Katla náði markmiðum sínum fyrir mótið en hún segir langtímamarkmið sitt vera að komast á Ólympíuleikana. Aðspurð hvað taki við eftir mótið segir hún: „Ég er að fara inn á smá undirbúningstímabil núna fyrir EM Junior og heimsmeistaramótið í haust.“