10 marka „Thriller“ í Njarðvík
Það fór svo sannarlega fram knattspyrnuleikur á Njarðtaksvellinum í dag. Njarðvíkingar og Reynismenn mættust þar í 2. karla og buðu áhorfendum upp á flugeldasýningu og þegar uppi var staðið stóðu tölurnar 6-4 á töflunni, sem minnir frekar á hálfleikstölur í handbolta en á úrslit í knattspyrnuleik.
Njarðvíkingar áttu enn möguleika á því að komast upp í 1. deild en til þess urðu þeir að treysta á úrslit úr öðrum leik. Það voru gestirnir frá Sandgerði sem komust yfir eftir stundarfjórðung þegar Þorsteinn Þorsteinsson komst einn inn fyrir og lék á Almar í markinu og renndi boltanum í netið. Njarðvíkingar virkuðu pirraðir á upphafsmínútunum og létu dómarann fara nokkuð í taugarnar á sér.
Það var svo á 23. mínútu að markamaskínan Andri Fannar Freysson jafnaði metin fyrir Njarðvíkinga eftir að boltinn hafði borist til hans í teignum. Andri var svo aftur á ferðinni skömmu síðar þegar brotið var á honum í teig Sandgerðinga og vítaspyrna dæmd. Úr henni skoraði Rafn Markús Vilbergsson og Njarðvíkingar leiddu 2-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst með látum og Kristinn Björnsson skoraði úr aukaspyrnu af yfir 30 metra færi sem markmaður Sandgerðinga réði ekki við, enda skotið bylmingsfast og staðan því orðin 3-1 fyrir græna. Pétur Jaidee breytti stöðunni svo í 3-2 skömmu síðar þegar að hann hamraði boltanum í slánna og inn af stuttu færi og allt orðið galopið.
Vignir Benediktsson, varnarmaður Sandgerðinga varð svo fyrir því óláni að setja knöttinn í sitt eigið net eftir góða fyrirgjöf frá Njarðvíkingum. Framherjinn stæðilegi hjá Njarðvík, Ólafur Jón Jónsson tók svo til sinna ráða og setti tvö mörk í lokin, annað þeirra kom eftir einkar laglegan undirbúning Andra Fannars Freyssonar.
Jóhann Magni Jóhannsson hjá Reyni náði hins vegar að tryggja sér markakóngstitilinn í 2. deildinni í ár með því að skora úr tveimur vítaspyrnum undir lok leiks, en það seinna kom eftir rúmlega 92. mínútna leik.
Það verður seint sagt að þessi lið hafi ekki skemmt áhorfendum í þessum leik frekar en í öðrum leikjum sumarsins og með smá heppni hefðu bæði liðin getað verið að leika um sæti í 1. deild að ári. Svo fór sem fór og Njarðvíkingar höfnuðu í 3. sæti deildarinnar eftir að ljóst var að Tindastóll sigraði Völsung 4-2. Reynismenn höfnuðu í 8. sæti deildarinnar.
Ólafur skorar hér fyrra mark sitt