10-11 mótið um helgina
Knattspyrnudeildir Keflavíkur og UMFN halda umfangsmikið knattspyrnumót í Reykjaneshöll um helgina í samvinnu við 10-11.
Þetta mót er nú haldið annað árið í röð og munu 11 íþróttafélög af suður- og suðvesturlandi senda 5. flokks lið drengja til mótsins.
Þátttakendur verða vel á fjórða hundrað drengja á aldrinum 10 og 11 ára og munu flestir þeirra gista í Holtaskóla.
Einnig má reikna með að fjöldi foreldra munu koma og fylgjast með börnum sínum keppa í Reykjaneshöllini um helgina. Segja aðstandendur keppenda að ánægjulegt sé að íþróttahreyfingin geti tekið virkan þátt í að fá fólk til þess að sækja Reykjanesbæ heim. Óhætt er að gera ráð fyrir að fyrirtæki og þjónustuaðilar á svæðinu muni njóta góðs af þessum heimsóknum. Fjöldi sjálfboðaliða mun leggja mótshöldurum lið til þess að gera mótið sem veglegast.
Mótið hefst kl. 10 í fyrramálið og lýkur um kl. 14:00 á sunnudaginn með verðlaunaafhendingu.
Þátttakendur munu gera ýmsilegt annað en að leika knattspyrnu, m.a. skoða flugvélar hjá Iceandair, fara í bíó og í sund, halda pizzuveislu svo eitthvað sé nefnt. Bæjarbúar eru hvattir til þess að líta við í Reykjaneshöllinni og fylgjast með sprækum og kátum strákum í fótbolta um næstu helgi.