10. flokkur UMFN Íslandsmeistarar 2010
10. flokkur karla tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2010 í morgun er þeir sigruðu KR 69-56 í úrslitaleik í Smáranum í Kópavogi. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á KR TV.
Það voru KR-ingar sem skoruðu fyrstu körfu leiksins en Njarðvíkingar svöruðu af krafti og komust í 11-4 um miðbik leikhlutans. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 13-5 og frábær vörn í gangi hjá UMFN. KR átti gott áhlaup snemma í leikhlutanum og staðan orðin 15-15 eftir rúmlega tveggja mínútna leik í öðrum leikhluta. Aftur kom þá góð rispa af hálfu okkar manna og var Birgir Snorri Snorrason atkvæðamikill á þessu tímabili og strákarnir breyta stöðunni úr 17-17 í 25-17. KR náði svo að minnka muninn í 4 stig áður en Njarðvíkurliðið svaraði með 11 stiga "rönni", áður en KR minnkaði muninn í 35-23 á lokasekúndum fyrri hálfleiks.
KR liðið mætti af mikilli grimmd í síðari hálfleikinn og þeir gerðu 8 stig gegn 2 á fyrstu 3 mínútum hálfleiksins en þá komu sex stig frá Birgi og Maciej og forystan aftur 11 stig. Þannig hélst munurinn út þriðja leikhluta og staðan 53-41 að honum loknum. KR skoraði 5 fyrstu stig fjórða leikhluta og virtust ætla að hleypa spennu í leikinn en Njarðvíkurliðið svaraði af krafti. Þeir leystu pressu KR vel og voru duglegir að sækja að körfunni og uppskáru vel. Munurinn hélst í 10 stigum eða meira til loka leiks og lokatölur eins og áður sagði 69-56.
Eins og oftast áður var það frábær liðsheild sem skóp þennan sigur. Birgir Snorri Snorrason var valinn maður leiksins en þrír leikmenn UMFN gerðu stórt tilkall. Birgir, Maciej og Valur Orri áttu frábæran leik og þeir Elvar Már og Dagur skiluðu sömuleiðis frábæru verki og þá sérstaklega varnarlega. Tómas Orri var mjög öflugur í vörninni í síðari hálfleik og Brynjar skilaði fínum mínútum sömuleiðis. Friðrik og Heiðar komu inn á lokamínútunni og gerðu vel, og Heiðar setti vítin sín örugglega niður.
Strákarnir eru því Íslands- og Bikarmeistarar 2010 og heimasíðan sendir þeim hamningjuóskir með frábæran vetur. Drengirnir urðu einnig Íslandsmeistarar í fyrra. Þá ber að óska Tómasi Orra Grétarssyni sérstaklega til hamingju en hann varð í dag Íslandsmeistari í fyrsta skipti og hefur staðið sig frábærlega í vetur rétt eins og liðsfélagar hans.
Mynd: Íslands- og Bikarmeistarar 10.flokks karla UMFN. Efri röð frá vinstri: Magni Þór Jónssson, Maciej Baginski, Brynjar Þór Guðnason, Heiðar Hönnuson, Friðrik Árnason, Einar Árni Jóhannsson þjálfari. Neðri röð frá vinstri: Róbert Reynisson stuðningsmaður, Sigurður Dagur Sturluson, Valur Orri Valsson varafyrirliði, Elvar Már Friðriksson fyrirliði, Birgir Snorri Snorrason og Tómas Orri Grétarsson. Ljósmynd: [email protected]