Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

1. deildin: Enn stórtap hjá Reyni
Laugardagur 21. júlí 2007 kl. 00:04

1. deildin: Enn stórtap hjá Reyni

Gæfa Suðurnesjaliðanna í 1. deild karla í knattspyrnu í leikjum kvöldsins var misjöfn, Reynir mátti bíða afhroð enn einu sinni þar sem þeir töpuðu 8-0 fyrir Fjölni í Grafarvogi, Njarðvík og Leiknir skildu jöfn 0-0 í Njarðvík og Grindavík tryggði sig í sessi á toppnum með 2-1 sigri á Stjörnunni.

Reynismenn lentu undir strax á 5. mínútu, en stóðu eftir það í heimamönnum og var staðan 1-0 í hálfleik. Í upphafi þess seinni brast stíflan þar sem Gunnar Már Guðmundsson skoraði fjögur mörk fyrir Fjölni á 16 mínútum og gerði út um leikinn. Þeir gerðu svo þrjú mörk í viðbót á síðustu 20 mínútunum.

Njarðvíkingum ætlar að ganga illa að hala inn stigum á nýjum heimavelli, en þeir gerðu markalaust jafntefli við Leikni í tilþrifalitlum leik. Markverðasta færið í leiknum átti Alfreð Jóhannesson þegar hann skaut í slá í fyrri hálfleik.

Grindvíkingar juku forskotið á toppi 1. deildar með 2-1 sigri á Stjörnunni á meðan Fjarðabyggð, sem var í 2. sæti tapaði gegn Þrótti sem hafði við þá sætaskipti, Mörk Grindvíkinga skoruðu Andri Steinn Birgisson og Orri Hjaltalín í upphafi leiks, en Stjarnan minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiks.

VF-mynd Þorgils - Úr leik Njarðvíkur og Leiknis
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024