Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 13. desember 2003 kl. 21:09

1. deild kvenna: Keflavík sigrar í grannaslag, Grindavík enn á botninum

KR-GRINDAVÍK

KR vann Grindavík í DHL-Höllinni í dag 75-61. Munurinn var einungis 2 stig í hálfleik, en KR mættu firnasterkar til leiks í 3. leikhluta og unnu að lokum góðan sigur þrátt fyrir að Grindvíkingar hafi átt ágætis sprett undir lokin. Grindavík situr enn á botni deildarinnar ásamt ÍR sem tapaði fyrir toppliði ÍS í dag. Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, lætur mótlætið ekki á sig fá heldur sagðist sjá mikil batamerki á liðinu þrátt fyrir tapið. „Stelpurnar voru að spila vel lengst af, en við gáfum eftir í 3. leikhluta og KR gengu bara á lagið. Svo vorum við líka góðar í síðasta fjórðungi, en munurinn var bara of mikill. Stelpurnar eru alltaf að batna og ef við fáum góðan útlending eftir áramót er aldrei að vita hvað gerist.“

 

Petrúnella Skúladóttir var stigahæst Grindvíkinga og skoraði 17 stig, Ólöf Pálsdóttir skoraði 15 og Sólveig Gunnlaugsdóttir 12.

 

Katie Wolfe var stigahæst KR með 24 stig. Hildur Sigurðardóttir var henni næst með 19 stig en tók einnig 12 fráköst.

 

KEFLAVÍK-NJARÐVÍK

Keflavík bar sigurorð af nágrönnum sínum úr Njarðvík í dag. Lokatölur leiksins, sem fór fram í Keflavík, voru 80-55. Leikurinn var nokkuð jafn framan af og munurinn í hálfleik var ekki mikill en í seinni hálfleik kláruðu heimastúlkur leikinn örugglega.

 

Anna María Sveinsdóttir, burðarás í liði Keflavíkur undanfarin ár, sagði að hún og liðsfélagar hennar hefðu ekki verið með á nótunum í byrjum leiks, en hafi tekið sig saman í andlitinu í seinni hálfleik. „Við spiluðum miklu betur í seinni hálfleiknum og náðum að loka á þær í sókninni og keyrðum leikinn upp á okkar hraða. Það var eins og við værum ekki alveg tilbúnar í leikinn í byrjun, en við höfum brennt okkur á slíku fyrr í vetur, en við þurfum að hafa fyrir hlutunum og mæta í leikina.“

 

Auður Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkur, sagði að keflavík hefði klárað leikinn strax í byrjun seinni hálfleiks. „Við gáfumst bara strax upp. Vörnin hjá okkur var skelfileg og svo hittum við illa úr okkar skotum.“

 

Keflavíkurstúlkur skiptu stigaskorun nokkuð jafnt á milli sín en Birna Valgarðsdóttir skoraði 14 stig, Svava Stefánsdóttir og Rannveig Randversdóttir skoruðu 13 stig  og Anna María skoraði 12. Anna tók einnig 10 fráköst.

 

Enn eina ferðina var Andrea Gaines allt í öllu hjá Njarðvík og skoraði hún 20 stig í dag. Auður Jónsdóttir og systir hennar, Dianna, komu næstar með 8 stig hvor.

EFtir 10 umferðir eru Stúdínur í efsta sæti en Keflvíkingar eru tveimur stigum þar á eftir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024