1. deild kvenna - Keflavík vann KR, Grindavík tapar fyrir ÍS
KEFLAVÍK-KR
Keflavík bar sigurorð af KR í baráttuleik í kvöld. Lokatölur leiksins, sem fór fram í íþróttahúsinu við Sunnubraut, voru 72-59.
Keflavíkurstúlkur byrjuðu leikinn vel og skoruðu fyrstu tíu stig leiksins. Eftir það komust KR-angar betur inn í leikinn og var leikurinn mjög jafn og hálfleiksstaðan var 26-27 gestunum í vil. Í byrjun seinni hálfleiks virtust Keflvíkingar hafa fundið fjölina sína þar sem þær sigldu framúr KR og virtust hafa leikinn í hendi sér. Þá tók við annar slakur kafli þar sem lítið gekk í sókninni og KR voru að fá of mikið að fráköstum og góðum sóknarfærum sem varð til þess að leikurinn jafnaðist á ný og gestirnir komust yfir á tímabili í fjórða leikhluta. Þá tóku heimastúlkur sig saman í andlitinu og tóku góða rispu þar sem þær náðu forystunni á ný og tryggðu sér að lokum mikilvægan sigur.
Hjörtur Harðarson var ekki allskostar ánægður með leik sinna stúlkna, en var þó sáttur við að landa stigunum tveimur. „Við vorum ekki að spila mjög góðan leik. Við vorum ekki að nota teiginn vel og klikkuðum úr alltof mörgum layup-um. Við virtumst ekki koma alveg tilbúnar í leikinn, en náðum þó að klára hann að lokum.“
Stigahæst Keflvíkinga var Erla Þorsteinsdóttir sem skoraði 32 stig og átti frábæran leik í kvöld. Þar á eftir kom Anna María með 11 stig og tók 13 fráköst og Birna Valgarðsdóttir var sterk undir körfunni og tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Hjá gestunum var Katie Wolfe stigahæst með 17 stig og Hildur Sigurðardóttir skoraði 16 stig og tók 15 fráköst.
GRINDAVÍK-ÍS
Ófarir Grindavíkurstúlkna í 1. deild kvenna virðast engan endi ætla að taka og töpuðu þær á heimavelli í kvöld fyrir toppliði ÍS 44-62. Heimastúlkur lentu undir í fyrsta leikhluta og komust aldrei inn í leikinn.
Hljóðið var dauft í Pétri Guðmundssyni, þjálfara Grindavíkur, að leik loknum. „Þetta er nú að verða slæmt hjá okkur. ÍS eru stærri en við og sterkari undir körfunni og tóku öll fráköst og þar á meðal 20 sóknarfráköst. Svo vorum við að hitta illa utan af velli og vorum oft ragar í sókninni.“
Aðspurður játaði Pétur því að leit stæði yfir að erlendum leikmanni sem ætti að styrkja liðið í baráttunni sem er framundan um sæti í úrslitakeppninni. Þar væri markið sett á að fá alhliða leikmann til að styrkja sóknarleik liðsins sem hefur ekki verið burðugur það sem af er vetri.
Stigahæst Grindvíkinga var Petrúnella Skúladóttir sem skoraði 11 stig.
Stigahæstar ÍS voru Alda Jónsdóttir, sem skoraði 16 stig og Hafdís Helgadóttir, sem skoraði 14 stig og varði 7 skot Grindavíkur. Þá átti Svandís Sigurðardóttir góðan leik undir körfunni þar sem hún tók 14 fráköst.
Hér má finna tölfræði leiksins