,,Þurfum að vera með hausinn skrúfaðan á í 40 mínútur"
Þröstur Leó segir Keflvíkinga tilbúna að sækja fram gegn Haukum í dag
Keflvíkinga bíður það erfiða verkefni að klára seríu sína við Hauka í 8 liða úrslitum Domino´s deildar karla. Einvígið hefur verið nokkuð kaflaskipt þar sem að Keflavík vann fyrstu 2 leikina en hefur svo misst dampinn og tapað síðustu 2 leikjum. Þar með er ljóst að bæði sæti í undanúrslitum og sögulegar staðreyndir eru að veði í kvöld.
Þröstur Leó Jóhannsson, baráttuhundur og einn reyndasti leikmaður Keflavíkurliðsins, sat fyrir svörum þegar blaðamaður ætlaði sér að forvitnast um ástandið á liðinu og þann andlega slag sem að Keflvíkingum er fyrir höndum í Schenker-höllinni í kvöld.
Hvernig er spennustigið í liðinu og hvernig hefur undirbúningur verið fyrir leikinn?
Það eru allir rólegir eins og er og tilbúnir í slaginn sem verður á morgun. Undirbúningur liðsins hefur verið hefðbundinn.
Hvernig var stemmningin í klefanum eftir 4. leikinn þar sem að þið glotrið niður forystunni í 4. leikhluta?
Það er bara á milli okkar í liðinu. Ekkert panic samt.
Hvaða lærdóm getið þið dregið af síðasta leik?
Að vera með hausinn skrúfaðan á í 40 mínútur.
Má búast við því að sjá aðrar áherslur í ykkar leik í oddaleiknum?
Nei, við erum ekki að breyta neinu. Við þurfum bara að sýna að við viljum komast í undanúrslitin meira en Haukadrengirnir.
Hvað þarf að varast í leik Haukaliðsins?
Við þurfum að ýta þeim út úr þeirra aðgerðum.
Nú eruð þið eina liðið í sögunni til að koma tilbaka eftir að hafa verið 0-2 undir í seríu. Mun sú staðreynd gefa ykkur byr undir báða vængi vitandi að Haukar geta leikið sama leik á ykkur og þið gerðuð á ÍR 2008?
Við erum ekkert að spá í því. Við viljum vinna leikinn á morgun til að ná þeim markmiðum sem við settum okkur fyrir þessa seríu.
Einhver skilaboð sem þú vilt koma til stuðningsmanna fyrir leik?
Hlakka til að sjá alla sem ætla að koma og styðja okkur. Um að gera að taka einn 15 mínútna rúnt frá Fitjum í þessa svakalegu stemmningu.
Leikur Keflavíkur og Hauka hefst kl. 16 að Ásvöllum í Hafnarfirði.