Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

,,Finn fyrir ómetanlegum stuðningi í kringum mig
Föstudagur 29. maí 2015 kl. 07:00

,,Finn fyrir ómetanlegum stuðningi í kringum mig

Crossfit konan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppir á Evrópuleikunum um helgina

Crossfit konan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir leggur land undir fót um helgina og keppir á hinum firnasterku Evrópuleikum sem haldnir verða í Danmörku. Ragnheiður Sara hefur farið mikinn í íþróttinni á síðasta ári og er nú svo komið að Sara þykir eiga góðan möguleika á því að vinna sér inn sæti á heimsleikunum í Crossfit sem fara fram í Kaliforníu seinna í sumar. 
 
Íþróttadeild Víkurfrétta náði tali af Söru rétt áður en hún hélt utan og fékk að forvitnast meira um hvað helgin beri í skauti sér fyrir hana.
 
Evrópuleikarnir (e. regionals) eru um helgina og eru haldnir í Ballerup Arena í Kaupmannahöfn í Danmörku. Fyrir þá sem ekki vita, segðu okkur aðeins frá því sem þarna mun fara fram og hvað er í húfi?
 
Um 9000 konur tóku þátt í undankeppni í febrúar til þess að komast á Evrópuleikana og 40 efstu úr þeirri undankeppni tryggðu sér þátttökurétt.
 
Evrópuleikarnir eru 3 daga keppni þar sem keppt er 2x á dag, nema á laugardeginum þar sem er keppt 3x. Samtals 7 mismunandi æfingar sem gefa mismunandi stig, því ofar sem þú lendir í hverri æfingu því fleiri stig færðu. Á Evrópuleikunum eru aðeins topp 5 sætin sem komast áfram á heimsleikana.
 
Hvernig leggst helgin í þig og hversu tilbúin finnst þér þú vera fyrir það sem koma skal?
Ég  er eins tilbúin og ég get verið, búin að gefa mig alla fram í æfingar og fórnað öllum mínum tíma í að æfa. 
 
 
Hvernig hefur undirbúningi verið háttað þessa síðustu mánuði fyrir mót? 
 
Mjög stífar æfingar 2x á dag, og mjög mikilvægt að taka æfingar með einhverjum sem ýtir mér áfram. Einnig mjög mikilvægt að hugsa vel um líkamann, hreint matarræði gott endurheimt (e. recovery), fer t.a.m. mjög oft í ísbaðið í sundlauginni í Keflavík milli æfinga.
 
Þú ert búin að vera að klifra metorðastigann innan Crossfit heimsins í allan vetur og er svo komið núna að þættir tileinkaðir greininni nefna þig stíft á nafn sem keppanda til að hafa augun á um helgina. Finnurðu fyrir aukinni pressu nú þegar þú hefur skapað þér nafn og ert á barmi þess að komast á heimsleikana eða er þetta allt saman olía á eldinn þinn?
 
Já það er smá aukin pressa á mér núna, sem mun vonandi bara hjálpa mér. En mér finnst best að hugsa sem minnst um þessa pressu og gera mitt allra besta, markmiðið mitt á Regionals er að klára keppnina og geta hugsað, ég gerði mitt allra besta og það er ekki hægt að biðja um neitt meira en það.
 
Ef við höldum okkur aðeins við sálfræðilegan þátt Crossfit, hversu stór er sá hluti greinarinnar þegar þú ert að glíma við nær ómennsk og vægðarlaus WOD þar sem að sársaukamörk eru reynd til hins ýtrasta?
 
Ég myndi segja að sálfræði hlutinn í crossfti sé 50% af árangri, þú þarft að vera með virkilega sterkan haus og mikinn vilja til þess að halda áfram og ná langt.
 
Þú landaðir nýlega samningi við NIKE, eitt stærsta íþróttamerki heims. Hvernig hljómar sá samningur og hvaða þýðingu hefur hann fyrir þig?
 
Við erum bara 2 stelpur og nokkrir strákar sem erum með þennan samning hjá Nike, þannig þetta er er mjög mikill heiður fyrir mig að vera önnur stelpan. Ég hef alltaf verið Nike manneskja og sagði við vin minn þegar ég byrjaði að æfa og var að kaupa æfingaföt að einn daginn verður mynd af mer á Nike auglýsingu í gríni, þannig það er hægt að segja að þetta sé hálfgerður draumur að rætast. 
 
 
Nú ertu að þjálfa hjá Crossfit Suðurnes milli þess sem að þú æfir yfir daginn. Hvernig er stemmninginn á meðal iðkenda þar fyrir helginni? Finnurðu fyrir miklum meðbyr frá fólki í kringum þig?
 
Ég fæ ómetanlegan stuðning frá þeim og væri ekki komin á þennan stað ef það væri ekki fyrir þau, og ótrúlegt hvað það eru margir sem hafa trú á mér. Svo til að toppa allan þennan stuðning þá eru um 30 manns að koma út til Kaupmannahafnar um helgina til þess að horfa á mig og styðja mig. 
 
Að lokum, mun Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir komast inn á heimsleikana í ár?
 
Það er ekkert annað í stöðunni en að komast!!!
 
Víkurfréttir óska Ragnheiði Söru alls hins besta um helgina og munu að sjálfsögðu fylgjast vel með gangi mála. 
 
Sporthúsið ætlar að sýna beint frá mótinu og er hægt að nálgast dagskránna með tímasetningum á keppnisgreinum Söru á vef vf.is og í Sporthúsinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024