„Saklaus skjálfti“ gerði usla í Grindavík
Munir féllu niður úr hillum og skúffur og skápar opnuðust í Grindavík þegar klukkan var korter gengin í átta í kvöld. Þá reið yfir jarðskjálfti sem sem samkvæmt mælingum var af stærðinni M4,1 en skjálfinn varð aðeins 1,8 kílómetra norðan við Grindavík.
Á samfélagsmiðlum má sjá myndir af munum sem féllu úr hillum og af veggjum og þar má sjá að fólki stendur alls ekki á sama. Það mátti jafnframt sjá að Grindvíkingar lýstu því að jörðin væri búin að nötra nær óslitið frá því síðdegis í dag.
Björn Birgisson, íbúi í Grindavík, lýsir upplifun sinni í færslu á Facebook þar sem hann segir að skjálftinn hafi verið eins og hann væri 5,5 til 6,0 „vegna þess einfaldlega að upptök hans voru nánast undir fótum okkar,“ segir Björn í færslunni og bætir við: „Þetta var hrikalega óþægilegt högg og mig grunar að nú hugsi margir til hreyfings til vina og vandamanna í „betri“ landshlutum. Þetta var verulega vont!.“
Fréttin hefur verið uppfærð en fyrstu tölur sögðu skjálftann hafa verið M3,5.