„Í gær gerðist allt sem við höfum hræðst“
„Í gær gerðist allt sem við höfum undanfarið hræðst, rúmlega 10.000 manns innlyksa vegna lokunnar Reykjanesbrautar. Enginn virðist hafa áhuga og allir aðilar málsins benda hver á annan. Í gær varð hræðilegt banaslys vegna framanáaksturs á hættulegasta vegakafla landsins frá Hvassahrauni til Krísuvíkurafleggjara. Hversu mörg banaslys verða þangað til einhver ráðamaður vaknar, tekur raunverulegar ákvarðanir og lætur verkin tala?,“ skrifar Guðbergur Reynisson, einn af talsmönnum „Stopp hingað og ekki lengra“, baráttuhóps um aukið umferðaröryggi á Reykjanesbraut.
Í færslunni vekur Guðbergur athygli á því að hópurinn hafi boðað til fundar með forsvarsmönnum álversins í Straumsvík, Hafnarfjarðarbæ og Vegagerðinni næsta miðvikudag en einungis Vegagerðin hefur staðfest mætingu á fundinn.
„Fundurinn mun fara fram. Eins og staðan er núna munum við einungis funda með Vegagerðinni en Hafnafjarðarbær og fulltrúar Álversins eru enn velkomnir til fundarins, það er að segja ef þeir sjá ástæðu til,“ skrifar Guðbergur.
Hann segir að einnig hafi verið óskað eftir fundi með samgönguráðherra.
„Það er komið nóg, miklu meira en nóg,“ segir Guðbergur að lokum.