„Endum þetta með góðri rokkveislu“
„Við höldum ótrauð áfram og stefnum á glæsilega tónleika,” segir Kristján Jóhannsson einn skipuleggjanda „Með blik í auga“ sem hefur gengið fyrir fullu húsi síðustu níu ár.
„Þetta hefur alltaf verið þematengt og í ár verður slegið í stórveislu þegar við gerum upp sögu rokksins. Já, við ákváðum að slá vel í og ljúka Blikinu með góðri rokkveislu.“
Einvalalið söngvara mætir til leiks að venju, þau Stefanía Svavars, Stebbi Jak, Matti Matt og Dagur Sigurðsson.
„Við Guðbrandur Einarsson og Arnór Vilbergsson höfum rekið þetta frá árinu 2010 þegar fyrsta Blikið fór af stað og satt best að segja átti bara að gera þetta einu sinni, en tónleikarnir eru allt í einu orðnir 28.“
-Má vænta tímamóta nú, 2020??
„Já. Blikið hættir eftir þessa tónleika. Við erum búin að vera að í 10 ár og þetta hefur verið frábært verkefni. En nú er þetta ákveðið og allir sáttir. Við höfum verið meira og minna sami hópurinn allan tímann og hann er orðinn þéttur. Þetta eru frábærir félagar,“ segir Kristján. „En það kemur eitthvað í staðinn. Það kemur alltaf maður í manns stað“
Tónleikarnir verða í Stapa í ár eins í fyrra. Frumsýning verður 2. september og síðan verða tvær sýningar 6. september.
„Við erum bjartsýn á að búið verði að rýmka samkomubannið í september og það er nú þannig að undirbúningur tekur langan tíma. Nú, annars verður bara tekið fullt tillit til þeirra reglna sem munu gilda.“