Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 15. apríl 1999 kl. 13:27

YTRI-NJARÐVÍKURKIRKJA 20 ÁRA

Sumardaginn fyrsta, 22. apríl nk., verður haldið upp á 20 ára vígsluafmæli Ytri-Njarðvíkurkirkju. Þann 28. janúar 1968 var Ytri-Njarðvíkursókn stofnuð og 11 árum síðar eða 19. apríl 1979 var kirkjan vígð af Sigurbirni Einarssyni, núverandi biskup. Að öðrum ólöstuðum má segja þá séra Páll heitinn Þórðarson, Friðrik Valdimarsson, Oddberg Eiríksson og Guðmund Gunnlaugsson hafa átt mestan þátt í uppbyggingu sóknarinnar. Kirkjan sjálf var hönnuð af Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall og þótti framúrstefnuleg á byggingartíma sem lauk 1979. Öllum nauðsynlegum framkvæmdum er nú lokið að sögn Baldurs Rafns Sigurðarsonar sóknarprests. „Nauðsynlegum úrbótum á flísalögnum, aðgengi fatlaðra og brunavörnum hefur verið lokið fyrir afmælið. Kirkjubyggingin er falleg og aðaltónlistarhús svæðisins og mjög eftirsótt að því tilefni. Þá er mjög skemmtilegt, á þessum tímapunkti að sami maður og vígði kirkjuna komi nú, prediki og þjóni fyrir altari. Á vígsluafmælinu munu fjórir þjóna fyrir altari, Sigurbjörn Einarsson biskup, séra Ólafur Oddur Jónsson, séra Þorvaldur Karl Helgason og ég sjálfur. Að hátíðarmessunni lokinni býður safnaðurinn til kaffisamsætis í Samkomuhúsinu Stapanum í Njarðvík“. Friðrik Valdimarsson sagði langa sögu að baki kirkjunni í Ytri-Njarðvík. „Þórlaug Magnúsdóttir í Höskuldarkoti stofnaði kirkjubyggingarsjóð í kjölfar þess að fjölskyldan missti tvo sonu í sæ. Í stofnsamningi sjóðsins var þess óskað að kirkjan yrði vígð á sumardaginn fyrsta sem var að sjálfsögðu gert. Njarðvíkurprestakall varð til 1. janúar 1976 sem var merkilegur dagur fyrir Njarðvík því þá fékk Njarðvík einnig kaupstaðarréttindi og tónlistarskólinn var stofnaður. Séra Páll Þórðarson varð fyrsti sóknarpresturinn en hann féll frá 1977 aðeins 35 ára að aldri.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024