Yngsti sitjandi þingmaður sögunnar
Bjarni Halldór Janusson segist meira en tilbúinn
Njarðvíkingurinn Bjarni Halldór Janusson mun í dag ná þeim áfanga að verða yngsti sitjandi þingmaður Íslands frá upphafi. Þar mun hann leysa Þorgerði Katrínu af á þingi, en hún verður fjarverandi vegna ráðherrastarfa erlendis. Bjarni var í fjórða sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum.
Áður var Víðir Smári Petersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sá yngsti frá upphafi en þegar hann hóf þingsetu var hann 21 árs og 328 daga gamall, en það var í september 2010. Í dag er Bjarni hins vegar 21 árs og 141 daga gamall. Bjarni er einnig nemi í stjórnmálafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og er þar að auki í stúdentaráði skólans.
Í samtali við Víkurfréttir segist Bjarni ætla að beita sér fyrir málefnum ungs fólks á þingi en þar á meðal ætlar hann að leggja fram þingsályktunartillögu sem snýr að sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum. „Aldurshópurinn 18 til 25 ára er sá hópur sem er í hvað mestri hættu þegar kemur að andlegum veikindum. Ég ætla vekja athygli á þeirra stöðu. Svo er fæðingarstyrkur námsmanna lægri en þeirra á vinnumarkaði. Mig langar einnig að vekja athygli á því, ásamt að koma öðrum almennum málum ungs fólks í umræðuna. Það eru nefnilega oftast þeirra mál sem sitja á hakanum þegar kemur að fjárveitingum. Ég er meira en tilbúinn í þetta.“