Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ýmislegt sem þarf að vera til staðar í Grindavík fyrir eðlilegt líf
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, á upplýsingafundi Almannavarna í dag.
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 16:06

Ýmislegt sem þarf að vera til staðar í Grindavík fyrir eðlilegt líf

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sagðist fagna áformum um að úrræði ríkisvaldsins til stuðnings Grindvíkingum yrðu framlengd fram á vorið.

Fannar sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að ýmislegt ætti eftir að gera áður en Grindvíkingar færu aftur heim Grindavíkur, þegar opnað verði á þann möguleika. Nú væri unnið eftir því skipulagi að skólahald standi út skólaárið þar sem börnin eru í skóla í dag og það er víða um land. Það skiptir líka máli að grindvískir kennarar sem eru að kenna þessum börnum geta ekki snúið til baka til Grindavíkur stax.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er ýmislegt sem þarf að vera til staðar í Grindavík svo hægt sé að tala um að ástandið sé orðið venjulegt fyrir íbúana að dvelja þar.

Í Grindavík þarf að ljúka vinnu við ýmsa stóra innviði eins og fráveitu og kalt vatn. Einnig er unnið við hitaveitu og fjarskipti. Það gangi allt vel en lítið megi útaf bregða svo röskun verði á þessum málum. Veitukerfið er ennþá laskað á einhverjum stöðum en unnið er í öllum kerfum um þessar mundir.

Þá sagði Fannar að Grindavíkurvegur þurfi að vera í góðu lagi. Vetrarþjónusta á vegum til og frá Grindavík þarf að vera í góðu lagi til að tryggja örugga rýmingargetu, komi til hennar.

Þá þarf að girða af sprungur og fylla upp í þær. Sprungur leynast víða. Þá þurfa að vera viðeigandi hættumerkingar.

Fannar sagði að opin svæði og leikvellir þurfa að vera örugg. Þá þarf að vera til staðar þjónusta viðbragðsaðila ef á þarf að halda

Engin þjónusta er til staðar í Grindavík sem stendur. Öll opinber þjónusta er starfrækt utan Grindavíkur og kemur ekki aftur til bæjarins fyrr en öruggt er að vera þar. Þá er önnur þjónusta og verslun mjög takmörkuð í bæjarfélaginu.

Þá kom fram í máli Fannars að ein athöfn hafi farið fram í Grindavíkurkirkju á dögunum. Það var útför sem fram fór í kyrrþey og var fámenn athöfn.

Þá kom fram í máli Fannars að verið er að vinna í tjónamálum alla daga og m.a. verið að undirbúa að ljúka málum þar sem altjón varð. Öryggi bygginga þarf að vera yfirfarið. Það hefur staðið yrir mjög mikil vinna á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Grindavíkurbæjar að meta húsnæði og skemmdir á mannvirkjum.