Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um málefni Grunnskóla Grindavíkur
Mánudagur 21. apríl 2014 kl. 09:15

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um málefni Grunnskóla Grindavíkur

Undanfarnar vikur hefur í fjölmiðlum birst umfjöllun um málefni einstakra nemenda og starfsmanna í Grunnskóla Grindavíkur. Í sumum tilvikum hefur verið leitað eftir sjónarmiðum stjórnenda skólans og Grindavíkurbæjar, í öðrum ekki. Forsvarsmenn skólans eru bundnir trúnaði og geta ekki fjallað um málefni einstakra nemenda eða starfsmanna í skólanum og hafa því beðist undan því að svara spurningum blaðamanna. 

Vegna þessara frétta hafa bæjarstjóri Grindavíkurbæjar og skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur ákveðið að birta eftirfarandi yfirlýsingu til að koma réttum upplýsingum á framfæri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Góður árangur náðst í eineltismálum

Því hefur verið haldið fram að einelti sé stórt vandamál í Grunnskóla Grindavíkur. Var í því sambandi vísað til tölfræði frá skólaárinu 2012-2013. Síðan þá hefur mikill árangur náðst. Grunnskóli Grindavíkur starfar á grunni hugmyndafræði Uppbyggingarstefnunnar og hefur sett sér skýra eineltisáætlun. Í eineltisáætluninni kemur meðal annars fram að Grunnskóli Grindavíkur hvetur nemendur og starfsfólk til að vera vakandi fyrir líðan nemenda og tilkynna strax ef grunur vaknar um einelti eða aðra óæskilega hegðun. Lögð er áhersla á að stöðva einelti strax og settar fram áætlanir þar um í samstarfi við aðila.

Eitt megininntak Uppbyggingarstefnunnar er að allir, nemendur jafnt sem starfsfólk, geti gert mistök og eigi að fá tækifæri til að læra af þeim og byggja sig upp. Unnið er í samræmi við þá stefnu og góður árangur hefur náðst undanfarin misseri.

Kannanir sem framkvæmdar eru meðal nemenda sýna fram á að mjög góður árangur hefur náðst í eineltismálum í vetur og verulega hefur dregið úr einelti í skólanum að mati nemenda. Tvær kannanir voru lagðar fyrir nemendur Grunnskóla Grindavíkur í mars síðastliðnum, annars vegar Skólapúlsinn og hins vegar Líðankönnun Grunnskóla Grindavíkur. Samkvæmt mælingu Skólapúlsins í mars mældist tíðni eineltis 10,5% í 6. - 10. bekk sem var 0,4% undir mánaðarmeðaltali þeirra skóla sem taka þátt í Skólapúlsinum. Í könnuninni um líðan nemenda mældist einelti 5,5% í 3. - 10. bekk og hefur ekki mælst minna síðastliðin 5 ár. Tiltrú foreldra á eineltisáætlun skólans hefur einnig aukist en samkvæmt mælingu Skólapúlsins í febrúar 2014 voru 61,9% foreldra ánægðir með eineltisáætlun skólans en árið 2013 voru 53,2% foreldra ánægðir með eineltisáætlunina.

Málsmeðferð

Aðgerðir skólastjóra í áðurnefndu máli byggja á stefnumörkun skólans um uppbyggingu og snúa annarsvegar að starfsmanninum og hinsvegar að nemendunum. Á þeim aðgerðum hvílir trúnaður, en þær miða að því að byggja nemendur og starfsmann upp eftir erfiða lífsreynslu þannig að þau geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Skólastjóri hefur auk þess gripið til ráðstafana sem tryggja að nemendurnir og kennarinn séu ekki í neinum samskiptum í skólanum. Aðgerðirnar voru kynntar viðeigandi aðilum, þ.e. starfsfólki skólans, foreldrum og nemendum sem málið varðar.

Bæjarstjóri hefur haft til meðferðar kvörtun foreldra vegna vinnubragða skólastjóra í málinu. Niðurstaða hans er sú að ekkert hafi komið fram í málinu sem flokkast geti sem brot skólastjóra í starfi. Þvert á móti hafi skólastjóri tekið á þessu flókna og erfiða máli í samræmi við stefnu skólans og málsmeðferð verið í samræmi við stjórnsýslulög, kjarasamning og góða stjórnunarhætti.

Foreldrarnir hafa vísað málinu til meðferðar fagráðs um eineltismál í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í verklagsreglum fagráðs kemur fram að hlutverk þess er að vera stuðningsaðili við skólasamfélagið, leita að fullnægjandi niðurstöðu í eineltismálum og að veita ráðgefandi álit um úrlausn mála. Málsmeðferð fagráðsins stendur yfir.

Virðingarfyllst

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri
Halldóra Kristín Magnúsdóttir, skólastjóri