Yfirheyrður í dag vegna glæfraaksturs, árásar og ráns
Maður sem lögreglan veitti eftirför í gær á Reykjanesbraut verður yfirheyrður í dag. Hann var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis í gær í annarlegu ástandi.
Maðurinn hafði verið mældur á 150 km. hraða á Reykjanesbraut og hófu lögreglubifreið og lögreglumótorhjól eftirför.
Bifreið mannsins varð óökufær eftir að henni var ekið í gegnum framkvæmdasvæði við hringtorg á mótum Reykjanesbrautar og Aðalgötu. Þar kýldi maðurinn lögregluþjón og rændi bifreið af ökumanni sem beið í umferðarteppu sem hafði myndast á svæðinu.
Eftirförin hélt áfram og endaði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem maðurinn ók í gegnum umferðarslá og bifreiðin hafnaði skömmu síðar á anddyri flugstöðvarinnar komumegin. Maðurinn var svo handtekinn inni í flugstöðinni í annarlegu ástandi.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum sem birtist á fésbókarsíðu lögreglunnar í gærkvöldi segir að atburðurinn sé mjög alvarlegur. Rannsókn sé að hefjast og frekari upplýsingar verði veittar þegar þær liggja fyrir.