Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirgefinn bíll í mánuð eftir handtöku bílstjórans
Frá handtökunni að kvöldi 27. júní sl. VF-myndir: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 25. júlí 2017 kl. 09:19

Yfirgefinn bíll í mánuð eftir handtöku bílstjórans

Blá blikkandi ljós og nokkuð fjölmenn lögregluaðgerð vakti athygli á Hafnargötu í Keflavík að kvöldi 27. júní sl. Ökumaður og farþegi jeppabifreiðar voru handteknir og skráningarnúmer bílsins voru fjarlægð. Ökumaðurinn var grunaður um ölvun við akstur og farþeginn lét ófriðlega þegar lögreglan stöðvaði för bifreiðarinnar.
 
Síðan handtakan var framkvæmd er næstum mánuður liðinn. Bifreiðin stendur ennþá í sömu sporum og þegar ferð hennar var stöðvuð þriðjudagskvöldið 27. júní. Það eina sem hefur gerst er að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur límt tilkynningu á bifreiðina þar sem eiganda gefst kostur á að fjarlægja ökutækið fyrir 18. júlí.
 
Frestur Heilbrigðiseftirlitsins er löngu liðinn og enn stendur bíllinn á bílastæði við Hafnargötu, nágrönnum til ama. Það er nefnilega ekki alltof mikið af bílastæðum við götuna á þessum slóðum.
 
Íbúi við Hafnargötu fór á lögreglustöðina þegar númerslausi bíllinn hafði staðið þarna í viku. Lögreglan vísaði á Reykjanesbæ sem síðan vísaði á Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, HES. Fulltrúi HES mætti og límdi framangreinda aðvörun á bílinn með kröfu um að bifreiðin yrði fjarlægð 18. júlí, sem var sl. þriðjudag. 
 
Bíllinn stendur enn óhaggaður og var gantast með það við götuna að hann færi örugglega ekki fyrr en í vikunni fyrir Ljósanótt. Hér með er komið á framfæri áskorun frá íbúum við Hafnargötu að eigandi bílsins fjarlægi hann án tafar.
 
 
 
Bifreiðin stendur á sama stað og fyrir mánuði síðan við Hafnargötuna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024