Yfirgáfu heimili sitt vegna myglusvepps – sífelld veikindi hrjáðu fjölskylduna
Óðinn Arnberg og Ragna Kristín Ragnarsdóttir eru ung hjón í Grindavík. Þau eiga fimm börn á aldrinum tveggja til sautján ára. Árið 2000 festu þau kaup á húsi í Grindavík sem átti að verða framtíðarheimili þeirra og í því skyni hófu þau gagngerar endurbætur á húsinu og eyddu í það stórfé. En í húsinu leyndist vargur í véum.
Nokkru eftir að þau fluttu inn fór að bera á margvíslegum veikindum í fjölskyldunni. Eitt tók við af öðru og veikindasagan virtist engan enda ætla að taka. Í ljós kom að myglusveppur grasseraði í húsinu og urðu þau hjónin á endannm að flýja úr því með börnin fimm. Þau sitja uppi með tjónið því engar tryggingar ná yfir þetta. Húsið er ónýtt, þær milljónir sem fóru í endurbæturnar eru tapaðar sömuleiðis og þau hafa jafnframt tapað megninu af eigum sínum sem þau urðu að skilja eftir í húsinu.
Sífelld veikindi í fjölskyldunni
„Veikindin byrjuðu fljótlega eftir að við fluttum inn. Þau lýstu sér m.a. annars í höfuðkvölum, stíflum í ennis- og kinnholum, niðurgangi, kvíðaköstum og fleiru. Við fundum öll fyrir þessu, Óðinn þó minnst því hann var á sjó og því oft að heiman. En ég og börnin vorum sífellt veik,“ segir Ragna Kristín í samtali við VF.
„Síðan fór þetta að ágerast með fleiri einkennum, t.d. minnileysi sem hrjáir bæði mig og yngri dóttur mína. Það er búið að ganga úr skugga um það í skólanum að hún þjáist af skammtíma minnisleysi. Svo var ég farin að fá miklar höfðuðkvalir. Læknarnir gátu ekkert fyrir mig gert, það virkuðu engin lyf á þetta. Mér leið alltaf skár þegar fór út á pall og andaði að mér fersku lofti en tengdi það aldrei húsinu. Það fylgdu þessu það miklar kvalir að ég kastaði upp. Það hvarflaði að mér að ég væri komin með slæmt mígreni eða jafnvel heilaæxli. Ég var sett í alls kyns rannsóknir og myndatökur án þess neitt fyndist og á endum fékk ég þann úrskurð að ég væri bara þreytt fimm barna mamma,“ segir Ragna Kristín.
Yngsta dótturinn hætt komin
Ragna segist það ákveðinn létti að vita loks hvers kyns er en vissulega sé sárt að tapa eigum sínum og heimili með þessum hætti.
Veikindin í fjölskyldunni ágerðust eftir því sem á leið og einkennin urðu harkalegri. Um jólin í fyrra varð yngsta barnið í fjölskyldunni svo alvarlega veikt að það var flutt með hraði á sjúkrahús. Orsökin var lungnabólga og RS vírus en það mun vera þekkt að hann kvikni við þessar aðstæður.
Það var svo í byrjun nóvember að Ragna og yngri dóttirinn misstu m.a. jafnvægisskynið og sonur hennar fékk heiftarleg útbrot um allan líkamann. Þá var orðið ljóst hvernig í pottinn var búið og fjölskyldan yfirgaf húsið. Fljótlega eftir það fór heilsufarið skánandi.
Framleiða eiturefni
En hvað skaðvaldur er þetta sem um ræðir?
Gró myglusveppa eru alls staðar í umhverfi okkar og eru hluti af eðlilegri hringrás náttúrunnar. Hlutverk þeirra í lífríkinu er m.a. að hjálpa til við niðurbrot og rotnun. Þeir finnast alls staðar utandyra og hafa ekki skaðleg áhrif þar. En taki þeir sér bólfestu í hýbýlum manna kárnar hins vegar gamanið. Kjöraðstæður þeirra eru léleg loftskipti og raki. Til eru nokkur afbrigði slíkra sveppa í mismunandi litum, s.s. svartir og rauðir. Þeir framleiða eitruð efnasambönd sem gerir það verkum að heilsuspillandi getur verið að lifa í nábýli við þá. Húsið sem Ragna og Óðinn keyptu er svokallað viðlagasjóðshús en sveppurinn getur gert vart við sig jafn í timbur- og steinhúsum, gömlum sem nýjum, hafi hann kjöraðstæður. Yfirleitt er auðvelt að komast fyrir myglusvepp en til eru dæmi þess að hús verði óíbúðarhæf og þurfi að jafna við jörðu, nái sveppurinn að grassera eins og hann gerði í húsi Rögnu og Óðins. Nánari upplýsingar um myglusveppi er hægt að nálgast á vefnum husogheilsa.is.
Misstu allt sitt
Fjölskyldan er sem fyrr segir flúin út úr húsinu og leigir húsnæði út í bæ. Þau voru búinn að eyða ómældri vinnu og peningum í endurbætur á húsinu en þau bæði breyttu því og byggðu við það. Alls fóru 10 milljónir króna í framkvæmdirnar. Það fé er því tapað, sömuleiðis húsið og nánast allt sem í því var. Allt var orðið sýkt og því ekki um annað að ræða en að skilja allt eftir.
„Hefðum við misst allt okkar í eldsvoða hefðum við bæði fengið tjónið bætt og skilninginn. En í þessu sitjum við uppi með tjónið, lítinn skilning og þurfum að halda áfram að borga af ónýtu húsi. Það ná engar tryggingar yfir þetta. Hjá ónefndu tryggingarfélagiu fengum við þau svör að það „væri ekki markaður“ fyrir tryggingar sem næðu yfir svona tjón.
---------------------------------------
Söfnun handa fjölskyldunni:
Vinir og velunnarar fjölskyldanar hafa opnað söfnunareikning til stuðnings henni.
Númer hans er:
1193-05-001550, kt. 140673-5369.
Annað kvöld verðar efnt til styrktarkvölds í Salthúsinu í Grindavík þar sem á dagskrá verður m.a. happdrætti og tónlistarmenn í bænum koma fram .
---------------------------
Ragna, Óðinn og börnin þeirra fimm hafa komið sér fyrir í leiguhúsnæði í Grindavík og eru strax farin að finna mun á heilsufari fjölskyldunnar. Frá vinstri: Thelma Rut,
Kristín Jóna, Viktor Arnberg, Rannveig Ósk, Óðinn Arnberg, Ragna Kristín og Laufey Arnberg.