Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirfullar tunnur og haugar af sorpi
Fimmtudagur 3. janúar 2013 kl. 11:02

Yfirfullar tunnur og haugar af sorpi

- Sorp ekki hirt á Ásbrú síðan 20. og 21. desember

Sorphirðu virðist víða ábótavant í Reykjanesbæ eftir jólahátíðina. Sérstaklega hefur Ásbrúarsvæðið verið nefnt í því samhengi en þar hafa safnast haugar af sorpi sem ekki kemst í yfirfullar tunnurnar eftir jólahátíðina.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Norðfjörð, framkvæmdastjóra hjá Kölku, hefur sorp ekki verið hirt síðan 20. og 21. desember á Ásbrú en síðan þá hafa verið frídagar þegar hirða á sorpið þar en það er gert á 10 daga fresti að öllu jöfnu.

Á þessum árstíma er óneitanlega meira sorp sem kemur frá heimilum en vanalega og því spurning hvort gerðar séu sérstakar ráðstafanir hvað þetta varðar. Jón segir svo ekki vera en farið er eftir sérstöku dagatali sem nálgast má hér á heimasíðu Kölku.

Jón sagði í samtali við Víkurfréttir að fólk ætti að huga að því að setja sorp í svarta ruslapoka eða hreinlega að hafa samband við Kölku ef rusl byrjar að safnast upp fyrir utan tunnur. Eins sé hægt að gera sér ferð með sorpið til Kölku.

„Fólk gengur misvel um og alltaf má gera betur í þeim efnum,“ sagði Jón einnig.

Verktakar sem sjá um sorphirðu hefjast handa við að hirða sorpið á Ásbrú í dag og þeirra bíður verðugt verkefni ef marka má þessar myndir sem blaðamaður Víkurfrétta tók á gamlársdag. Síðan þá hefur bæst í hauginn en Jón hefur heyrt að þessu ástandi. Hann segir að sorphirðufólk muni koma til með að hirða upp það sorp sem safnast hefur upp utan íláta. Fólk ætti svo endilega að hafa samband við Kölku ef það verður vart við að slíkt sé ekki gert og einnig ef fólk verður vart við sóðaskap af einhverju tagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svona var umhorfs á gamlársdag við eitt fjölbýlishúsanna á Ásbrú.

Þessar myndir eru teknar í Innri-Njarðvík í morgun og eins og sjá má er ruslið byrjað að dreifast um göturnar.