Yfirburðir Sjálfstæðisflokks í nýrri könnun – Viðbrögð oddvitanna
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ heldur hreinum meirihluta í bæjarstjórn samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Flokkurinn myndi samkvæmt henni tapa einum bæjarfulltrúa en fengi 51,2% fylgi þeirra bæjarbúa sem afstöðu tóku í könnuninni. Það er rúmum 5% undir kjörfylgi flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosninum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 56,3% atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn fengi því 6 bæjarfulltrúa af 11.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar mælast Vinstri græn með 12,1% fylgi í Reykjanesbæ og fengi einn bæjarfulltrúa. Samfylkingin nýtur stuðnings 26,4% og fengi þrjá bæjarfulltrúa. Framsóknarflokkurinn nýtur stuðnings 10,3 prósenta samkvæmt könnuninni og fengi samkvæmt því einn bæjarfulltrúa.
Víkurfréttir leitaði eftir viðbrögðum oddvitanna á þeim framboðslistum sem bjóða fram í Reykjanesbæ:
„Í svona starfi er enginn tími fyrir önnur áhugamál en að vinna fyrir íbúana að betri aðbúnaði í atvinnu, fjölskyldu og umhverfi. Ég er ánægður með að íbúar kunna vel að meta slíka vinnu og þeir hafa verið virkir þátttakendur í henni í gegnum fjölmarga samstarfs- og upplýsinga fundi. Við erum að uppskera mikinn árangur í atvinnumálum innan fárra mánaða og mikilvægt að hafa tiltrú bæjarbúa til að fylgja því fast eftir,“ sagði Árni Sigfússon, efsti maður á framboðslista Sjálfstæðismanna.
„Maður verður alltaf að taka skoðanakönnunum með fyrirvara. En það er mjög ánægjulegt að fá þessar fréttir ef við miðum við síðustu kosningar. Okkur finnst við vera að höfða til fólks og við finnum mikinn meðbyr og jákvæðni. Við stefnum á að ná inn tveimur mönnum sem alls ekki er óraunhæft að vera bjartsýnn á,“ sagði Gunnar Marel Eggersson, sem leiðir framboðslista Vinstri grænna.
„Við erum á réttri leið. Nú hefst kosningabaráttan. Nú vitum við vitum hver staðan er og hvert markmiðið er. Leiðin er uppávið. Framsókn í Reykjanesbæ bauð síðast fram fyrir átta árum. Við erum með nýtt fólk tilbúið að takast á við nýja tíma. Krafan er lýðræði og fyrir það stöndum við. Núverandi meirihluti þarf aðhald.
Við fögnum áskorunum og horfum bjartsýn fram á veg. Við erum tilbúin og ætlum okkur stærri hlut. Í ljósi þess ekkert framboðanna hafa birt stefnuskár sínar er þetta mjög ásættanleg útkoma en við ætlum okkur stærri hlut,“ sagði Kristinn Þór Jakobsson, oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ.
„Það er ljóst að lítill áhugi er á stjórnmálum þessa dagana, svo virðist sem almenningur hafi fengið nóg af allri umræðunni um spillta stjórnmálamenn.
Það er á brattann að sækja fyrir okkur og ljóst að nú verður að bretta upp ermar og sækja fylgi, við erum með gott og heiðarlegt fólk og ég trúi því að heimamenn muni koma til liðs við okkur. Samfélagið er beygt en ekki bugað og öllum er ljóst að hér hafa sjálfstæðismenn ekki staðið sig vel með 16% atvinnuleysi,“ sagði Friðjón Einarsson, efsti maður á lista Samfylkingar.