Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Yfir þrjú þúsund störf á leynilista
    Atvinnutækifærin eru m.a. í Helguvík. VF-mynd: Páll Ketilsson
  • Yfir þrjú þúsund störf á leynilista
    Pétur Jóhannsson hafnarstjóri Reykjanesbæjar lumar á lista með 3166 atvinnutækifærum í Reykjanesbæ. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 26. september 2014 kl. 08:29

Yfir þrjú þúsund störf á leynilista

- listinn „trúnaðarmál af hinu góða“

Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að góðar fréttir væru í fundargögnum Atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar. Vísaði Kristinn þar til lista sem ráðið lumar á og inniheldur 3166 atvinnutækifæri. Kristinn sagðist á bæjarstjórnarfundinum í fullum rétti til að ræða málið, þar sem hann eða fulltrúar Framsóknarflokksins ættu ekki sæti í Atvinnu- og hafnarráði Reykjanesbæjar.

„Verkefnalisti atvinnutækifæra í Reykjanesbæ“ er plagg sem Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Atvinnu- og hafnaráðs hefur umsjón með. Listinn var lagður fram á síðasta fundi ráðsins þar sem farið var yfir hann með stjórnarmönnum. Þá kemur fram að listinn verði uppfærður samkvæmt upplýsingum frá stjórnarmönnum.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra, sagði á bæjarstjórnarfundinum í Reykjanesbæ í síðustu viku að verkefnalistinn yfir atvinnutækifæri í Reykjanesbæ væri í endurskoðun. Hann sagði að listinn væri umdeildur og ýmislegt á honum þarfnist endurskoðunar.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði listann vera vinnuplagg hafnarstjórans og mjög gróf áætlun um hugsanlega mannaflaþörf þeirra fyrirtækja sem eru að koma eða hafa í hyggju að koma. Hann sagði listann vera vinnuplagg sem ætti heima inni á skrifstofu hafnarstjórans og vinnuplagg fyrir atvinnu- og hafnarráð „en ekki gagn sem við eigum að taka sem heilagan sannleika hér á bæjarstjórnarfundi“.

Jóhann Snorri Sigurbergsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði á bæjarstjórnarfundinum að á listinn væri skrá yfir þá aðila sem hafa rætt við bæjaryfirvöld eða sóst eftir aðstöðu við höfnina. Verkefnin á listanum væru flokkaskipt eftir því hversu langt þau væru komin. Hann sagði gott að geta fylgst með verkefnunum á þennan hátt en listinn „væri trúnaðarmál af hinu góða“ enda var ekki upplýst á bæjarstjórnarfundinum um hvaða atvinnutækifæri væri að ræða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024