Yfir 60 síður af fersku efni í Víkurfréttum vikunnar
Tuttugasta tölublað Víkurfrétta er komið út. Blað vikunnar er rúmar 60 síður og fullt af áhugaverðu efni. Í blaði vikunnar höldum við áfram að taka hús á Suðurnesjafólki í útlöndum.
Við förum alla leið til Ástralíu og heyrum hvað Eydís Konráðsdóttir hefur að segja. Hún hefur búið í Sydney frá árinu 2004. Hún starfar sem heimilislæknir, er gift og þriggja barna móðir.
Við förum einnig til Svíþjóðar og ræðum við Grindvíkinginn Eyþór Atla. Hann býr þar með fjölskyldu sinni og starfar sem kennari.
Tveir ungir Suðurnesjamenn sem reka leitarvél í samvinnu við bílaleigur hafa brugðist við algeru stoppi í rekstrinum með því að fara nýjar leiðir. Þeir eru komnir úr bókunarþjónustu í barnabókaútgáfu.
Við ræðum við Jóhann Friðrik Friðriksson, forseta bæjarstjórnar Reykjanebæjar, sem segir að auka þurfi fjölbreytnina í atvinnulífinu á Suðurnesjum.
Við heimsækjum bleikjueldi Samherja í Grindavík en þar er helmingur af allri eldisbleikju í heiminum alin þar til henni er slátrað í Sandgerði.
Í blaðinu förum við í Lambafellsgjá sem er algjörlega mögnuð. Sjón er sögu ríkari.
Björgvin Ívar Baldursson segir okkur frá sínum fimm uppáhaldsplötum.
Guðbjörg Bjarnadóttir úr Grindavík varð fyrir svörum þegar við settum okkur í samband við Kanaríeyjar.
Karen Guðnadóttir steig úr fyrir þægindarammann þegar hún flutti ásamt eigimanni sínum til Danmerkur.
Í blaðinu eru einnig fjölmargar fréttir og einnig íþróttaumfjöllun.
Þá má vekja athygli á því að í blaðinu birtum við fimm opnur með myndum af viðmælendum og frá fólki sem deildi með okkur dagbókum á tímum COVID-19. Í síðustu sjö blöðum hafa verið viðtöl við um 200 einstaklinga víðsvegar um land og í öllum heimsálfum. Þá hefur fólk skrifað dagbókarbrot fyrir okkur og við höfum rætt við fólk í verslun og þjónustu. Í þessum opnum í blaðinu eru tenglar á þessi viðtöl. Með því að smella á myndir opnast viðtölin.
Njótið Víkurfrétta og lesið blaðið aftur og aftur.