Yfir 5 milljónir hafa safnast fyrir minnisvarða
– til að minnast Andrews hershöfðingja og áhafnar B-24D Liberator „Hot Stuff“
Yfir fimm milljónir króna hafa safnast fyrir minnisvarða sem stendur til að reisa í hrauninu við Grindavíkurveg til að minnast Andrews hershöfðingja og áhafnar B-24D Liberator „Hot Stuff“ herflugvélarinnar sem fórst á Fagradalsfjalli fyrir rúmum 70 árum.
Bræðurnir Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir eru áhugamenn um sögu síðari heimsstyrjaldarinnar á Íslandi og hafa sýnt sögu „Hot Stuff“ sérstakan áhuga og stóðu m.a. fyrir því að sett var upp upplýsingaskilti í hrauninu við Grindavíkurveg árið 2013 þegar 70 ár voru liðin frá slysinu.
Vinur þeirra, Jim Lux, áhugamaður um seinni heimsstyrjöldina hefur náð merkum áfanga við söfnun á fjármunum til að reisa minnisvarða um flugslysið í Fagradalsfjalli. Safnast hafa yfir 40.000 dollarar af þeim 70.000 sem áætlað er að þurfi til verkefnisins. Meiningin er að minnisvarðinn verði vígður 3. maí 2018 en þá eru 75 ár liðin frá atburðinum.
Hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B- 24D Liberator sem bar heitið Hot Stuff á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn Hot Stuff var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.
Í flugslysinu fórust fjórtán manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.
Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961.