Yfir 40 ár á háloftunum - fjölbreytt jólablað VF
Jólablað Víkurfrétta 2010 kemur út á morgun. Blaðið er 48 bls. og í því er fjölbreytt og skemmtilegt efni. Þar má nefna viðtal við Oddnýju Björgólfsdóttur, flugfreyju til fjörutíu og tveggja ára hjá Icelandair en VF fylgdi henni í síðustu ferð hennar 9. des. sl. en þá átti hún einmitt afmæli sama dag, 67 ára.
Í Jólablaðinu er margt annað skemmtilegt, jólamatur og kökur og mörg viðtöl. Þar má nefna innlit Mörtu Eiríksdóttur til Helgu K. Guðmundsdóttur en sú síðarnefnda er mikið jólabarn. Anna S. Jóhannesdóttir gefur okkur nokkrar uppskriftir að hollari mat á jólunum og þá fáum við frásögn frá Evrópuferð Suðurnesjamanna á mótorhjólum. Við ræðum við Erlu Haraldsdóttur sundkonu sem hefur verið í Bandaríkjunum við nám og sundiðkun.
Síðasta blað fyrir jól kemur út miðvikudaginn 22. des. Síðasti skilafrestur auglýsinga er á mánudag 20. des. en æskilegt er að panta pláss í tíma.