Yfir 300 flippa á Ásbrú
– Mikill áhugi fyrir vendinámsráðstefnu í Keili
Von er á yfir þrjú hundruð þátttakendum á alþjóðlega ráðstefnu um vendinám sem verður haldin þriðjudaginn 14. apríl næstkomandi í Keili á Ásbrú.
Þátttakendur á ráðstefnunni koma af öllum skólastigum og frá öllu landinu, en að auki munu hátt í fimmtíu erlendir aðilar sækja ráðstefnuna og kynna sér í framhaldinu nýstárlega kennsluhætti í íslenskum skólum. Á ráðstefnunni munu þátttakendur geta sótt fjölda vinnustofa og fengið þannig innsýn í hvernig hægt er að innleiða vendinám á mismunandi skólastigum, hvort heldur sem er í einstökum námsgreinum eða skólastarfi almennt. Sérstakir gestir verða Jonathan Bergmann og Aaron Sams, forsprakkar vendinámsins í Bandaríkjunum og höfundar bókarinnar „Flip Your Classroom: Reach Every Student in Every Class Every Day“, en þeir eru með vinsælustu fyrirlesurum í heimi á þessu sviði. Jonathan og Aaron verða með sérstakar vinnubúðir fyrir skólastjórnendur 15. apríl, en uppselt er á þann viðburð.
Ráðstefnan er liður í verkefninu „FLIP - Flipped Learning in Praxis“ sem fékk nýverið styrk úr Erasmus+ menntáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið hefur það markmið að búa til handbækur fyrir kennara sem hafa hug á að innleiða vendinám í kennslu og skólastarfi. Meðal samstarfsaðila eru Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Mentor, Menntavísindasvið Háskólans í London og Sofatutor í Þýskalandi sem sérhæfir sig í upptökum á kennsluefni.
Nánari upplýsingar um FLIP verkefnið og ráðstefnuna má nálgast á heimasíðunni www.vendinam.is