Yfir 20% íbúa á Suðurnesjum lifa á atvinnuleysis- og örorkubótum
Yfir 20% íbúa á Suðurnesjum lifa á atvinnuleysis- og örorkubótum. Atvinnuleysið hefur ekki aðeins áhrif á fjárhag íbúanna heldur þrúgandi sálræn áhrif um allt samfélagið. Fólk virðist ekki hafa mikla von um að ástandið lagist fljótt að því er fram kemur í umfjöllun um ástandið í Sunnudagsmogganum.
„Þú missir svo mikið þegar þú missir vinnuna, bæði félagsskap og stöðu í samfélaginu,“ segir Gunnar H. Gunnarsson, verkefnisstjóri Virkjunar sem er félagsmiðstöð atvinnuleitenda. „Það skiptir mestu máli að eitthvað fari að gerast í atvinnumálum hérna. Það er hægt að fá endalausan frest á nauðungaruppboðum og afborgunum en það bætir ekki hag viðkomandi fyrr en hann fer að fá reglulegar tekjur til þess að geta greitt,“ segir hann. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.