Yfir 100 vildu en 28 fengu
Flugvirkjanám Keilis og AST nýtur mikilla vinsælda
Flugvirkjanámið sem Keilir býður í samstarfi við AST nýtur mikilla vinsælda. Fyrst var boðið upp á flugvirkjanámið haustið 2013 og bárust vel yfir hundrað umsóknir um þau 28 pláss sem voru í boði. Það er því ljóst að mikill áhugi er meðal Íslendinga að sækja flugvirkjanám, enda er mikill skortur á flugvirkjum í heiminum. Keilir og AST benda á í tilkynningu að nám og starf í flugvirkjun hentar jafnt konum sem körlum og því hvetjum við konur sérstaklega til að skoða þennan möguleika í framtíðinni. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í flugvirkjanám AST hjá Keili sem hefst næst í janúar 2015 en nánari upplýsingar um námið eru á vef Keilis.
Air Service Training ltd. (AST) er í samstarfi við Keili og hefur sett upp útibú frá skóla sínum í Perth í Skotlandi hjá Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Í skólanum fer fram réttindanám flugvirkja og er um að ræða fimm anna samþykkt nám fyrir flugvirkja „Approved IR Part 66 Category B“ sem er bóklegt og verklegt iðnnám flugvirkja. Námið tekur mið af námsskrá sem gefin er út af EASA samkvæmt samevrópski útgáfu skírteina og sér AST um framkvæmd og ber faglega ábyrgð á gæðum námsins. Þeir sem ljúka flugvirkjanámi hjá AST öðlast öll þau réttindi sem EASA 145 viðhaldsfyrirtæki krefjast við ráðningu flugvirkja fyrir nútíma flugvélar.