Yfir 10 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll árið 2018
-Farþegafjöldi hefur fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015
Fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur verið hröð undanfarin ár, en árið 2010, þegar Isavia var stofnað, fóru rúmar tvær milljónir farþega um völlinn. Ef ný farþegaspá gengur eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015. Margvíslegar áskoranir fylgja slíkum vexti og hefur Isavia staðið í tuga milljarða framkvæmdum til að mæta vextinum auk þess að fjölga starfsfólki mjög hratt.
Þetta koma fram á árlegum morgunfundi Isavia sem haldin var á Hilton Nordica í morgun var kynnt ný spá um farþegafjölda fyrir Keflavíkurflugvöll árið 2018. Þá var Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson með erindi um hvaða áhrif það hefur fyrir Ísland að Keflavíkurflugvöllur er skiptistöð milli heimsálfa auk þess sem Ásta Kristín Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri íslenska ferðaklasans kynnti viðskiptahraðalinn Startup Tourism, sem hefur hjálpað fjölda sprotafyrirtækja í ferðaþjónustu að komast á legg, segir í frétt frá Isavia.
„Fjölgun farþega sem eiga leið um Keflavíkurflugvöll hefur verið gríðarlega hröð undanfarin ár og mun hraðari en í löndunum í kringum okkur. Þegar Isavia var stofnað árið 2010 var farþegafjöldinn tvær milljónir og við búumst við tíu milljónum á næsta ári. Starfsfólk Isavia og annarra rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli hefur sannarlega lyft grettistaki við að taka á móti þessari miklu fjölgun en halda á sama tíma uppi góðu þjónustustigi. Við þurfum að halda þessari vinnu ótrauð áfram, því áframhaldandi farþegafjölgun er fyrirséð á sama tíma og við stöndum í framkvæmdum á einu mesta uppbyggingarskeiði í sögu flugvallarins,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
- Skiptifarþegum, sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli, fjölgar um 33%
- Fjölgun komu- og brottfararfarþega virðist sækja í jafnvægi
- Árstíðasveiflan minnkar áfram
- Tengiflugið orðin mikilvæg stoð
Mikil fjölgun skiptifarþega
Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar kynnti farþegaspá Isavia. Samkvæmt spánni munu 10,4 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári, 18% fleiri en á þessu ári. Mest er fjölgunin á meðal skiptifarþega, sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku eða 33%. Fjölgun komu- og brottfararfarþega er hlutfallslega minni en undanfarin ár, 10%, en þó er fjölgunin töluvert yfir meðaltalsfarþegafjölgun á flugvöllum í Evrópu og Norður-Ameríku. Ef spáin er skoðuð niður á mánuði sést að markaðsátak ferðaþjónustunnar og hvatakerfi Isavia, sem hafa markvisst miðað að því að fjölga ferðamönnum utan sumartíma, halda áfram að skila miklum árangri. Þannig er búist við því að fjölgun farþega í júní, júlí og ágúst verði um 4%, en að fjölgun utan mestu álagstímanna verði á bilinu 10-20% og janúarmánuður árið 2018 verður stærri hvað farþegafjölda varðar en júnímánuður árið 2015. Tölurnar sýna að ferðaþjónustan er búin að festa sig í sessi sem heilsársatvinnugrein.
Áframhaldandi uppbyggingarskeið er í kortunum á flugvellinum og búast má við að Isavia muni framkvæma fyrir yfir 15 milljarða á ári næstu árin. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun farþega hefur starfsfólki á Keflavíkurflugvelli tekist vel að halda uppi þjónustustigi. Hlynur fór yfir niðurstöður ASQ kannana, sem eru samræmdar alþjóðlegar þjónustukannanir framkvæmdar á vegum alþjóðasamtaka flugvalla. Samkvæmt niðurstöðunum eru farþegar ánægðir með þjónustuna á Keflavíkurflugvelli og þó einkunnin hafi lækkað frá því sem best var, helst völlurinn í flokki bestu flugvalla í Evrópu hvað varðar þjónustugæði.
Hverju skila skiptifarþegar til þjóðarinnar?
Á fundinum fór Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson ráðgjafi sérstaklega yfir fjölgun skiptifarþega sem fara í gegnum Keflavíkurflugvöll og þann margvíslega ábata sem af henni hlýst. Fjöldi rannsókna sýna að öflugar samgöngutengingar milli landa skila sér í auknum lífsgæðum fyrir þjóðir. Fjölgun skiptifarþega eykur verulega flugtengingar við Ísland þar sem að flugfélög geta flogið til áfangastaða sem væru ekki eins ábatasamir ef eingöngu væri verið að markaðssetja ferðir til og frá Íslandi. Tengiflugið er því orðin mikilvæg stoð undir uppbyggingu flugs á Íslandi og til framtíðar þarf að huga að því hvernig íslenskt hagkerfið geti nýtt þá stoð enn betur til aukinna lífskjara. Huginn Freyr fór yfir nokkra þætti í þessu sambandi eins og aukna samkeppnishæfni landsins, tækifæri til að laða að margs konar starfsemi, stuðning við útflutning og lækkun vöruverðs.
Ferðasprotar til framtíðar
Viðskiptahraðlinum Startup Tourism var ýtt úr vör árið 2016 með það að markmiði að styðja við þá miklu nýsköpun sem orðið hefur í ferðaþjónustu undanfarin ár. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans kynnti hraðalinn og sagði frá nokkrum af þeim fjölmörgu verkefnum sem tekið hafa þátt í hraðlinum og eru orðin starfandi ferðaþjónustufyrirtæki í dag.
Bakhjarlar Startup Tourism viðskiptahraðalsins eru Isavia, Vodafone, Íslandsbanki og Bláa lónið en Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins. Hér er að finna lista yfir þau verkefni sem tekið hafa þátt í hraðlinum: https://www.startuptourism.is/