Vogar kaupa verslunarrými til að styrkja verslunarrekstur með dagvöru
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur staðfest kaup sveitarfélagsins á verslunarrými í Iðndal 2, samkvæmt fyrirliggjandi kauptilboði með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Bæjarráð lagði þetta til við bæjarstjórn og telur að með þessu megi styrkja verslunarrekstur með dagvöru í sveitarfélaginu og þar með bæta þjónustu fyrir íbúa þess.
Bæjarráð lítur einnig svo á að hér sé um að ræða fjárfestingu til framtíðarnota fyrir sveitarfélagið. Þá leggur bæjarráð jafnframt til að húsnæðið verði boðið til leigu fyrir verslunarrekstur.
Jóngeir H. Hlinason, bæjarfulltrúi L-listans, lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar þar sem segir: „Ég ítreka bókun mína frá bæjarráðsfundi nr. 329 og tel að Sveitarfélagið Vogar eigi ekki að kaupa fasteignir sem ekki nýtast beint fyrir starfsemi sveitarfélagsins. Einnig vil ég benda á að ef sveitarfélagið hyggst leigja út fasteignina í starfsemi sem er í samkeppnisrekstri eigi að bjóða út fasteignina til leigu.“
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs um kaup á verslunarhúsnæðinu með sex atkvæðum. Fulltrúi L-listans sat hjá.
„Bæjaryfirvöldum fannst mikilvægt við þessar aðstæður að leggja sitt að mörkum, og hyggst með kaupunum á húsnæðinu leita leiða til að dagvöruverslun verði starfrækt að nýju í sveitarfélaginu. Þegar hefur verið leitað til nokkurra aðila sem starfa á dagvörumarkaði, og standa vonir okkar til að þær skili árangri. Mikilvægt er fyrir íbúa sveitarfélagsins að hafa aðgang að verslun með helstu vörur í nærumhverfi sínu, og vill sveitarfélagið því með þessari aðgerð leggja sitt að mörkum til að svo geti orðið,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum í pistli sem hann skrifar í dag.