Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Ríkisvaldið verður að taka á vandanum“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 4. febrúar 2021 kl. 11:51

„Ríkisvaldið verður að taka á vandanum“

– segir bæjarfulltrúi Miðflokksins í bókun um málefni Útlendingastofnunar í Reykjanesbæ

„Bæjarfulltrúi Miðflokksins tekur í einu og öllu undir þau sjónarmið sem fram koma í bókun velferðarráðs enda er bókunin að nokkru leyti byggð á málflutningi mínum á kjörtímabilinu. Sérstaklega er tekið undir að þjónustusamningurinn hefur haft álag á ýmsa innviði og talsvert álag hafi verið á sjúkraflutninga vegna flutninga í Sóttvarnarhús,“ segir Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, í bókun við fundargerð velferðarráðs þar sem ítarlega var farið yfir málefni Útlendingastofnunar í Reykjanesbæ og greint var frá í síðasta tölublaði Víkurfrétta.

Í bókun Margrétar segir einnig: „Eins og staðan er í dag er mikið atvinnuleysi í Reykjanesbæ og kallar það á mikið álag á ýmsar stofnanir bæjarins og ekki síst félagsþjónustuna. Við það bætist að hælisleitendur þurfa mikla þjónustu og mikla aðstoð fyrstu mánuðina. Ríkisvaldið verður að taka á vandanum. Byggja ætti sérstaka móttökustöð fyrir hælisleitendur í námunda við flugvöllinn að fyrirmynd Norðmanna þar sem þjónusta yrði veitt á meðan umsóknir yrðu afgreiddar á 48 klukkustundum. Miðflokkurinn á Alþingi lagði fram þingsályktunartillögu um breytingar á útlendingalögum til að auka skilvirkni í málsmeðferð hælisleitenda á síðasta ári. Að dómsmálaráðherra verði falið að flytja frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo að lögfesta megi nauðsynlegar breytingar á málaflokknum fyrir þinglok.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég fagna því að velferðarráð telur ekki stætt á að ganga til samninga við Útlendingastofnun um að Reykjanesbær taki yfir þjónustu á Lindarbraut 536 á þeim grundvelli sem stofnunin leggur til enda er það algerlega ótækt og óskiljanlegt að stofnunin skuli ætlast til þess að sveitarfélagið taki yfir þessa þjónustu sér í lagi að Útlendingastofnun tók á leigu Lindarbraut til fimm ára í óþökk sveitarfélagsins. Ég tek undir með velferðarráði að fleiri sveitarfélög verði að axla ábyrgð í málaflokknum, sem er í ólestri og skrifast það á stjórnvöld. Það er óásættanlegt að Ísland skuli vera með veikustu löggjöfina í Evrópu í málefnum hælisleitenda. Það kallar bara á eitt, stöðuga fjölgun umsókna hér á landi. Reykjanesbær getur ekki leyst heimatilbúinn vanda stjórnvalda þegar kemur að hælisleitendum.“