X-Vogar: Þrjú framboð keppa um hylli 791 kjósanda
Kjósendur á kjörskrárstofni í Sveitarfélaginu Vogum eru alls 791. Þar af 367 konur og 424 karlar. Framboð í Sveitarfélaginu Vogum: E - listinn, listi Strandar og Voga, H - listi óháðra borgara, L - listinn, listi fólksins.
VF ræddi við oddvita framboðanna þriggja sem sjá mér hér að neðan:
--------------------
Vilja komun böndum á rekstur sveitarfélagsins
Inga Sigrún Atladóttir, oddviti H-listans í Vogum, tekur undir það að kosningabaráttan nú sé með öðru yfirbragði en fyrir síðustu kosningar. Hún hafi farið seint og rólega af stað. Nú sé minni kostnaður lagður í útgáfu og auglýsingar. Maður á mann – aðferðin hafi meira vægi, sem Inga Sigrún segir jákvætt enda telji hún að stjórmálamenn eigi að fara og heilsa upp á fólkið og vera í tengslum við það. Hún segir frambjóðendur H-listans hafa gert nokkuð af því að banka uppá hjá fólki í bæjarfélaginu við góðar undirtektir. „Mér finnst þetta í raun miklu eðlilegra svona heldur en að vera með einhvern hamagang. Ég tel að kjarninn komist betur til skila með þessum hætti,“ segir Inga Sigrún.
Hún segir helstu áherslur H-listans ganga út á að koma böndum á rekstur sveitarfélagsins.
„Við erum svo heppin að eiga fjármuni eftir sölu hitaveitunnar. Þeir hafa verið notaðir í reksturinn án þess að hafa verið notaðir í eitthvað sérstakt. Við viljum skilja á milli hefðbundins rekstrar og framlags til uppbyggingar og menningar. Við ætlum að nota vextina til þess að byggja upp atvinnu og menningu í sveitarfélaginu. Efla félögin og mannlífið þannig að íbúarnir fái notið þess. Ef við ætlum að taka af höfuðstólnum fari það til fjárfestinga t.d. til að stækka sundlaugina,“ segir Inga Sigrún. Hún telur brýnt að efla félags- og menningarlíf í bæjarfélaginu, ekki síst nú þegar erfiðleikar steðja að í þjóðfélaginu. H-listinn vilji t.a.m. efla forvarnar- og tómstundastarf unglinga alveg til 18 ára aldurs með samvinnu stofnana bæjarins og félagssamtaka.
„Við leggjum áherslu á mannlífið og sjáum fyrir okkur að hægt verði að nýta þessa fjármuni í eins konar sprotasjóði sem stæði undir t.d alls kyns sérverkefnum sem bæði félagssamtök og einstaklingar gætu tekið að sér. Við höfum mikla trú á þessu“.
Nokkuð er um nýtt fólk á H-listanum en í fjórum efstu sætunum eru þrír sem koma nýir inn. Aðspurð segir Inga Sigrún að vel hafi gengið að manna listann fólki sem vilji breytingar í bæjarfélaginu. Undirbúningur hafi farið af stað fyrir áramót enda vilji H-listinn vinna heimavinnuna sína vel þar sem fulltrúar hans vilji ekki sitja annað kjörtímabil í minnihluta. „Ég er afar ánægð með hvernig til hefur tekist,“ segir Inga Sigrún.
Inga Sigrún Atladóttir
------------------------------------------------------------
Viljum aukið lýðræði fyrir íbúana
L-listinn er nýtt stjórnmálaafl í Vogum og þar munu því þrír framboðslistar keppa um hylli kjósenda fyrir komandi kosningar. Oddviti listans er Kristinn Björgvinsson, 36 ára sjálfstæður atvinnurekandi.
„Við erum bara hópur fólks sem vill láta gott af sér leiða. Við erum leið á þessari eldhúsborðs-umræðu og viljum gera eitthvað í málunum. Þetta er að megninu til nýtt fólk með nýja strauma,“ segir Kristinn aðspurður um tilurð L-listans. Hann segir L-listann m.a. vilja meira lýðræði í bæjarstjórn þannig að það sé ekki einn flokkur sem taki ákvarðanir og ráði öllu. „Við viljum aukið lýðræði fyrir íbúa sveitarfélagsins og að fleiri mál séu borin undir fólkið sem býr hérna,“ segir Kristinn.
-Finnið þið meðbyr í bæjarfélaginu fyrir þetta nýja framboð?
„Ástæðan fyrir því að við fórum út í þetta var sá góði hljómgrunnur og meðbyr sem við fundum í bæjarfélaginu. Við könnuðum baklandið vel og sáum að fólk vildi eitthvað nýtt. H-listinn var hér við völd í 16 ár, síðan tók E-listinn við. Þeir hafa gert margt gott en einnig margt miður eins og t.d. farið í niðurskurð á þjónustu við eldri borgara, fólkið sem byggði þetta sveitarfélag. Það kann að vera að þeir spari einhverjar krónur við það en okkur finnst að þarna sé ekki verið að spara á réttum stöðum,“ segir Kristinn.
Hann segir L-listann einnig efins um þær hugmyndir að nota framfarasjóð sveitarfélagsins í kostnaðarsamar stórframkvæmdir þegar sveitarfélagið sé rekið með halla og verið sé að skera niður þjónustu við íbúa. Það skjóti skökku við.
-Hvað þýðir þessi meðbyr marga fulltrúa í bæjarstjórn fyrir L-listann?
„Við erum nokkuð vissir um einn. Spurning hvort það verði tveir en við stefnum allavega hátt,“ svaraði Kristinn.
Kristinn Björgvinsson.
------------------------------------------------------
Áframhaldandi ábyrg stjórn sveitarfélagsins
Það er eitthvað að lifna yfir þessu núna eftir rólegan aðdraganda,“ segir Hörður Harðarsson, efsti maður á lista E-listans í Vogum. „Við höfum aðeins verið að taka púlsinn á fólki, gengum í hús um helgina og kynntum málefni. Víða var það byrjunin á einhverju.“ Hann segir stöðuna nokkuð óráðna þar sem nú verði þrír listar í framboði og umræða sé lítið komin í gang. Það geti því allt eins stefnt í spennandi kosningar.
„Það varð nokkur endurnýjun á listanum en flestir þeir sem koma nýir inn núna er fólk sem hefur verið að starfa með okkur án þess að vera beint í framlínunni. Það hefur þó starfað í nefndum og öðru. Við höfum haldið úti ljómandi góðu starfi allt kjörtímabilið með þessum hópi sem er mjög samheldinn og góður“ segir Hörður um E-listann.
„Stærsta málið hjá okkur er að halda áfram því starfi sem við höfum verið að vinna,“ svarar Hörður, inntur eftir því hvað E-listinn legði upp með í þessa kosningabaráttu.
„Við höfum verið svo heppin að eiga þennan sjóð [e.söluna á HS – innsk.blm] sem við höfum getað nýtt hann til að milda þær aðhaldsaðgerðir sem bæjarfélagið var tilneytt að fara út í. Stærsta málið hjá okkur er áframhaldandi ábyrg stjórn sveitarfélagsins. Við göngum ekki um og lofum einhverjum skýjaborgum sem sveitarfélagið er ekki tilbúið að bæta við reksturinn. Við erum að glíma við það að reksturinn tekur meira en skattekjurnar eru. Þær aðgerðir sem við höfum verið í undanfarið snúast um að ná niður rekstrarkostnaði en jafnframt að verja hin almennu gildi,“ segir Hörður.
Hann segir það stefnu E-listans að Róbert Ragnarsson verði áfram bæjarstjóri sveitarfélagsins og áfram verði haldið með ókeypis skólamáltíðir.
„Við vorum í fyrra og erum í atvinnuskapandi framkvæmdum í sveitarfélaginu. Núna vorum við að auglýsa útboð á íþróttasvæðinu sem hefur staðið til í mörg ár að endurnýja. Þá var líka verið að bjóða út vinnu við fráveituna en við fórum í verulegar umhverfisframkvæmdir í fyrra og munum halda áfram með endurbyggingu gatna og endurnýjun lagna, gangstétta og fleira,“ segir Hörður ennfremur um stefnumál E-listans.
Hörður Harðarsson