Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

X-Sandgerði: Nýtt klofningsframboð á síðustu stundu
Sunnudagur 23. maí 2010 kl. 10:24

X-Sandgerði: Nýtt klofningsframboð á síðustu stundu



Kjósendur á kjörskrárstofni í Sandgerði eru alls: 1.086. Þar af 518 konur og 568 karlar.

Framboð í Sandgerðisbæ:

B - listi Framsóknarfélags Sandgerðis og óháðra
D - listi Sjálfstæðismanna og óháðra borgara
H - Listi fólksins
S - Samfylkingin, K - listinn og óháðir borgarar


----------------------


Gætu orðið sögulegar kosningar í Sandgerði

Við finnum fyrir miklum meðbyr hérna í Sandgerði. Fólk leitar mikið til okkar með spurningar og við finnum fyrir áhuga fólks,“ segir Guðmundur Skúlason framkvæmdastjóri, sem skipar oddvitasæti Framsóknarflokks og óháðra í Sandgerði fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.

- Hver eru stærstu málin sem þið leggið áherslu á í þessari kosningabaráttu?
„Það eru helst fjármál bæjarfélagsins. Við erum eitt af tíu skuldugustu sveitarfélögum landsins. Það nennti enginn að hlusta á tal um fjármál fyir fjórum árum en núna er komið annað hljóð í fólkið. Eftir hrunið varð vitundarvakning um að þetta væri nú kannski ekki alveg eðlilegt,“ segir Guðmundur.

Guðmundur nefnir það að Sandgerðisbær sé aðili að Fasteign og hann vilji skoða þau mál vandlega að bæjarfélagið eignist þær eignir aftur sem settar hafa verið inn í Fasteign „Það er alveg glórulaust að vera að leigja þetta,“ sagði Guðmundur. „Minnihlutinn hefur verið að benda á þetta, en aldrei hefur verið hlustað“. Hann bendir á að með langtímaskuldbindingum sveitarfélagsins séu skuldir á hvern íbúa í Sandgerði 2,6 milljónir króna. „Þá eru velferðarmál og fjölskyldumál ofarlega í huga okkar,“ segir Guðmundur.

- Hvaða málefni skipta Sandgerðinga mestu máli á komandi kjörtímabili?

„Það er að halda grunnþjónustunni í því horfi sem hún er og spara ekki þar. Það þarf hins vegar að spara á mörgum öðrum sviðum og ná meiri hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins. Þetta er rekið með halla hér ár eftir ár“.

- Hvaða væntingar hafið þið til þessara kosninga sem eru framundan?

„Mér sýnist á öllu að þetta gætu orðið sögulegar kosningar fyrir Framsóknarflokkinn og við fengjum a.m.k. tvo menn í bæjarstjórn. Hinir flokkarnir eru að tala um hreinan meirihluta, en það er eitthvað sem er ekki gott fyrir sveitarfélagið, að það sitji einhver einn flokkur að völdum,“ segir Guðmundur Skúlason í samtali við Víkurfréttir.



Guðmundur Skúlason

------------------------------


Örfá atkvæði koma til með að ráða úrslitum

„Það er snarpur sprettur framundan,“ segir Ólafur Þór Ólafsson bæjarfulltrúi í Sandgerði og oddviti Samfylkingar og óháðra í komandi bæjarstjórnarkosningum. Hann segir stemmninguna vera góða og starfið undanfarið hafi verið skemmtilegt en ýmsar uppákomur hafa verið fyrir kjósendur á síðustu dögum og verða fram að kosningum.
Þegar blaðamaður heyrði í Ólafi á þriðjudag var stefnuskrá framboðsins í prentun og átti Ólafur von á að hún yrði komin inn á öll heimili í Sandgerði um helgina. Aðspurður hvort stefnuskráin innihéldi kosningabombur, sagði Ólafur að það væri álit framboðsins að það væri ekki tími fyrir stór kosningaloforð núna.

„Við teljum að það sé varnarbarátta framundan fyrir Sandgerði. Við segjum varnarbarátta og uppbygging en hún á við um atvinnumálin. Þá þurfum við að tryggja það að sveitarfélagið geti haldið uppi góðu þjónustustigi“.

- Hvað skiptir Sandgerði mestu máli?
„Við setjum atvinnumálin í efstu sætin og þá erum við ekki bara að tala um Sandgerði, heldur horfum á Suðurnes sem eina heild. Það skiptir máli að við vinnum saman á Suðurnesjum að atvinnumálum. Það er í mínum huga lykillinn að því að við náum að snúa hjólunum við. Þá þurfum við að ná betur utan um rekstur sveitarfélagsins til að tryggja áframhaldandi góða þjónustu“.

- Viltu spá um úrslit?

„Við stefnum á að ná inn fjórum mönnum að minnsta kosti. Það að nýtt framboð hafi komið fram í Sandgerði setur allt úr jafnvægi. Það setur spennu í þetta en það er erfitt að spá. Það er alveg ljóst að það verður mjótt á mununum, hvernig sem fer. Það verða örfá atkvæði sem koma til með að ráða úrslitum,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, oddviti S-listans í Sandgerði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Ólafur Þór Ólafsson

--------------------------------------


Fólk kallar á breytingar

Þetta verður barátta hjá okkur, ég er hræddur um það,“ segir Magnús Sigfús Magnússon húsasmiður í Sandgerði sem skipar efsta sæti á H-listanum í Sandgerði.
„Við munum leggja áherslu á að halda velferðinni uppi í bænum og þeirri þjónustu sem hefur verið í boði“.

- Hvað er mikilvægast fyrir Sandgerði næstu árin?
„Það eru atvinnumálin. Við setjum þau í efstu sætin. Við þurfum að fá fleiri fyrirtæki inn á svæðið. Ég er þá að horfa til Suðurnesja í heild sinni,“ segir Magnús.

Aðspurður um stemmninguna í kringum framboð H-listans, þá segir Magnús hana vera jákvæða. „Við erum nýtt framboð sem kemur fram seint og við megum hafa okkur alla við til að koma inn manni. Við vissum það þegar við fórum af stað að róðurinn gæti orðið erfiður. Við stefnum hins vegar að því að koma inn einum manni,“ segir Magnús.
Magnús þorir ekki að spá til um úrslit kosninganna en viðurkennir að framboð H-listans muni setja strik í reikninginn. „Auðvitað kallar fólk á breytingar, það er ekki hægt að neita því og það er ein af þeim ástæðum að þetta framboð kemur fram. Hér getur allt gerst á kjördag,“ sagði Magnús að endingu.



Magnús Sigfús Magnússon

----------------------------------------


Áhersla á verndun grunnþjónustunnar


Stemmningin í okkar herbúðum hefur verið góð það sem af er, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði, sem leiðir lista Sjálfstæðisflokks og óháðra í Sandgerði í komandi kosningum.

Sigurður segir mikið starf hafa verið unnið í kosningaundirbúningi. Skemmtikvöld fyrir unga kjósendur, óvissuferð fyrir konur og ferð og kvöldverður fyrir eldri bæjarbúa, svo eitthvað sé nefnt.

- Hver eru stærstu málin í Sandgerði?
„Stærstu málin eru atvinnumál og svo umhverfismál en það sem við leggjum megin áherslu á er að vernda grunnþjónustu bæjarfélagsins í þessum hamförum sem dynja á heimilum bæði hér og annars staðar.
Til þess að við getum tryggt grunnþjónustuna verður atvinnulífið að komast í eðlilegt horf og þá er nærtækast að óska eftir því að álver í Helguvík fari að sjá dagsins ljós og að stjórnvöld í landinu styðji við átak Suðurnesjamanna í þeim efnum“.

Sigurður horfir ekki eingöngu til Sandgerðis þegar kemur að atvinnumálum, heldur Suðurnesja í heild, enda séu þau eitt atvinnusvæði og atvinnulífið tengist mjög sterkt frá einu sveitarfélagi til annars.
Varðandi úrslit kosninganna vildi Sigurður litlu spá. Væntingar hans til Sjálfstæðisflokks og óháðra er að framboðið haldi sínum hlut og bæti heldur í.



Sigurður Valur Ásbjarnarson

------------------------------------------